Erlent

Herferð með Ed Sheeran í fararbroddi sögð „fátæktarklám“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Söngvarinn Ed Sheeran sést hér ásamt götustrákum í Afríkuríkinu Líberíu. Herferðin, sem vekja á athygli á fátækt í landinu, hefur verið harðlega gagnrýnd.
Söngvarinn Ed Sheeran sést hér ásamt götustrákum í Afríkuríkinu Líberíu. Herferðin, sem vekja á athygli á fátækt í landinu, hefur verið harðlega gagnrýnd. Vísir/Skjáskot
Breski söngvarinn Ed Sheeran er um þessar mundir andlit einnar af herferðum góðgerðarsamtakanna Comic Relief. Herferðin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að ala á skaðlegum staðalímyndum um fátækt, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Leikararnir Eddie Redmayne og Tom Hardy eru einnig talsmenn sambærilegra herferða á vegum bresku hjálparsamtakanna DEC. Allar herferðirnar hafa nú verið tilnefndar til Radi-Aid-verðlaunanna fyrir að vera þær „skaðlegustu“ árið 2017. Markmið verðlaunanna er að fá hjálparsamtök á borð við Comic Relief og DEC að hverfa frá staðalímyndum um fátækt fólk í „þriðja heims ríkjum“ í öllu efni á vegum samtakanna.

Í umsögn dómnefndar var herferð Sheeran, þar sem hann sést ræða við götubörn í Afríkuríkinu Líberíu, sögð jaðra við „fátæktarferðamennsku“, ákveðna grein innan ferðamannaiðnaðarins sem gagnrýnd hefur verið fyrir að gera fátækt að skemmtiefni fyrir ríka vesturlandabúa.

Þá var herferð Hardy, sem vekur athygli á hungursneyðinni í Jemen, sögð afturhvarf til níunda áratugarins og herferð Redmayne enn fremur gagnrýnd harðlega fyrir að fjalla um fátækt á fordómafullan hátt.

Framkvæmdastjóri Comic Relief, Liz Warner, sagði að samtökin tækju tilnefninguna nú til skoðunar. Samtökin væru nú enn meðvitaðri um að halda í við breytta tíma og að „ljá fólkinu, sem fjallað er um, rödd.“

Myndband úr herferð Comic Relief, með Ed Sheeran í fararbroddi, má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×