Erlent

Katalónskum ráðherrum sleppt úr gæsluvarðhaldi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Marcel Padros, gjaldkeri katalónska þingsins, greiddi tryggingu ráðherranna.
Marcel Padros, gjaldkeri katalónska þingsins, greiddi tryggingu ráðherranna. Nordicphotos/AFP
Sex fyrrverandi ráðherrum katalónsku héraðsstjórnarinnar var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær gegn tólf milljóna króna tryggingu. Tveir eru enn í haldi, fyrrverandi innanríkisráðherrann Joaquim Forn og fyrrverandi varaforseti héraðsstjórnarinnar Oriol Junqueras. Ráðherrarnir höfðu verið í haldi frá því 2. nóvember. Þá eru sjálfstæðisbaráttumennirnir Jordi Sanchez og Jordi Cuixart einnig enn í haldi.

Fyrrverandi héraðsstjórnarmennirnir hafa verið ákærðir fyrir uppreisn gegn spænska ríkinu vegna kosninga sem efnt var til um sjálfstæði Katalóníu í október og sjálfstæðisyfirlýsingar sem undirrituð var í sama mánuði. Gætu þeir átt yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsisdóm.

Sexmenningarnir þurfa hins vegar að mæta vikulega fyrir dóm í Katalóníu, þá er þeim óheimilt að fara frá Spáni og hafa vegabréf þeirra verið tekin af þeim. Er þetta gert til að fyrirbyggja að hin ákærðu flýi land eins og fyrrverandi héraðsforsetinn Carles Puigdemont og fjórir fyrrverandi ráðherrar gerðu.

Puigdemont og ráðherrarnir fjórir mættu fyrir dóm í Brussel, höfuðborg Belgíu, í gær en Spánverjar sækjast eftir framsali þeirra. Lögmaður Puigdemont sagði í gær að úrskurðar væri að vænta 14. desember.

Kosningabarátta fyrir héraðsþingkosningar Katalóníu hefst í dag en spænska ríkisstjórnin boðaði til kosninga eftir að hún leysti upp þingið þann 27. október. Kosningarnar fara fram þann 21. desember og benda kannanir til þess að flokkar aðskilnaðarsinna muni ekki fá hreinan meirihluta. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×