Erlent

Ástralir fagna samkynja hjónaböndum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikill fögnuður braust út um alla Ástralíu eftir að niðurstaðan lá fyrir.
Mikill fögnuður braust út um alla Ástralíu eftir að niðurstaðan lá fyrir. Vísir/EPA
Fulltrúadeild ástralska þingsins samþykkti í dag með yfirgnæfandi meirihluta að leyfa samkynja hjónabönd í landinu.

Mikill fögnuður braust út eftir að niðurstaðan lá fyrir - bæði innan þingsalsins sem utan hans.

Öldungardeild þingsins samþykkti samkynja hjónabönd í síðustu viku en hatrammlega hefur verið deilt um málið í Ástralíu síðasta áratuginn.

„Þvílíkur dagur fyrir ástina, fyrir jafnrétti og fyrir viðringu,“ sagði forsætisráðherrann Malcolm Turnbull eftir atkvæðagreiðsluna. „Ástralíu hefur tekist það.“

Löggjöfin nýtur yfirburða stuðnings meðal Ástrala sem endurspeglaðist í úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Rúmlega 61% Ástrala var samþykkur því að leyfa samkynja hjónabönd en um 80% þarlendra kjósenda tók þátt í atkvæðagreiðslunni.

Gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi á allra næstu dögum. Hér að neðan má sjá myndband sem Guardian gerði í tilefni dagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×