Viðskipti innlent

Aukning í ríkisútgjöldum nemi 90 milljörðum

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Hækkun árlegra útgjalda ríkissjóðs og opinberra fyrirtækja myndi nema 87,9 milljörðum króna verði öll fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar í stjórnarsáttmálanum að veruleika. Á sama tíma yrði tekjusamdráttur 15 milljarðar. Þetta kemur fram í úttekt á vegum Samtaka atvinnulífsins.

Að mati SA ber að meta þessa aukningu þar sem útgjöld ríkissjóðs hér á landi séu með því hæsta sem mælist á meðal OECD-ríkjanna (Efnahags- og framfarastofnunin), eða um 40 prósent af landsframleiðslu. „Það blasir því við að aldrei verður hægt að hrinda öllu í framkvæmd sem lofað er í sáttmálanum,“ segir þar.

Sáttmálinn gerir ráð fyrir að uppsveifla haldi áfram og teygi sig áfram yfir kjörtímabilið án stórra áfalla eða skerðinga á tekjum ríkissjóðs. Að mati SA er það áhyggjuefni að ekki hafi verið dreginn meiri lærdómur af sögunni við gerð þessa sáttamála.

„Í ríkisfjármálum höfum við reglulega farið fram úr okkur í uppsveiflu og tekið það út með meiri samdrætti en annars þegar slaki myndast í hagkerfinu.“

Ítreka mikilvægi skuldaniðurgreiðslu

Samtökin gagnrýna hversu lítið er minnst á skuldaniðargreiðslu í sáttmálanum en hvergi er minnst á slíkt í sáttmálanum.

„Vaxtakostnaður ríkisins er nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Ísland greiðir 4 prósent af landsframleiðslu í vexti á meðan Grikkir greiða ekki nema 3,2 prósent og Svíar greiða 0,4 prósent í vaxtagreiðslur. Verði einskiptistekjur nýttar til niðurgreiðslu skulda þá gæti árlegur vaxtasparnaður ríkisins numið um 10 milljörðum. Huga verður að þessum staðreyndum í fjárlagafrumvarpinu,“ segir enn fremur.

Mikilvægi forgangsröðunar er þar einnig ítrekað en samtökin telja að ekki hafi verið nógu rík áhersla á það. Til þess að unnt sé að gera betur í ríkisrekstri þurfi að forgangsraða.

Að lokum útlistar SA mikilvæg mál sem ekki voru nefnd í stjórnarsáttmálanum. Þar ber helst að nefna niðurgreiðslu skulda, eins og áður segir, aðhald í ríkisrekstri, betri nýtingu á skattfé landsmanna, einföldin á skattkerfinu, ólík rekstrarform, stytting grunnskóla, lestrarvandi ungs fólks og endurskoðun fjármögnunarlíkans háskólanna.

Málin sem SA telur að betur hefði verið minnst á í sáttmálanum.SA





Fleiri fréttir

Sjá meira


×