Erlent

Systkinaerjum lauk með blóðsúthellingum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tomioka Hachimangu-hofið er þekkt kennileiti í japönsku höfuðborginni.
Tomioka Hachimangu-hofið er þekkt kennileiti í japönsku höfuðborginni. Vísir/Getty
Þrennt var myrt og einn særður við frægt Shinto-hof í Tókýóborg í nótt í því sem sagðar eru vera erfðadeilur. Hinn grunaði er talinn hafa myrt systur sína, sem var hæstráðandi í hofinu, er hún steig út úr bíl sínum. Ökumaður hennar særðist jafnframt í árásinni.

Bróðirinn er síðar sagður hafa myrt aðra konu, sem aðstoðaði hann við morðið á systur sinni, áður en hann svipti sig svo sjálfur lífi. Blóðugt samúræjasverð fannst á vettvangi.

Að sögn þarlendra miðla eru morðin hrottalega birtingarmynd áralangra deilna milli systkinanna um hver fengi að taka við stjórn hofsins.

Bróðirinn, sem sagður er heita Shigenaga Tomioka, tók við stjórnendastöðunni af föður sínum á tíunda áratugnum en var svo rekinn árið 2001. Þá tók faðir hans aftur við stöðunni og gerði dóttur sína að næstráðanda.

Í upphafi tíunda áratugarins er Shigenaga sagður hafa hótað systur sinni ítrekað og sent henni bréf með hvers kyns ógnunum. Ætlaði hann meðal annars að „senda hana til vítis,“ er fram kemur á vef Japan Times.

Þegar faðir þeirra fór á eftirlaun árið 2010 tók dóttir hans við keflinu - sem reitti bróðurinn til ómældrar reiði.

Hof fjölskyldunnur, Tomioka Hachimangu-hofið í Tókýó, er víðfrægt í heimalandinu - ekki síst fyrir að hýsa eina af stærstu árlegu hátíðahöldum borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×