Erlent

Eitraði fyrir „siðspilltum“ ættingjum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Patrizia Del Zotto, frænka ódæðismannsins, var meðal hinna látnu. Hér sést hún ásamt eiginmanni sínum.
Patrizia Del Zotto, frænka ódæðismannsins, var meðal hinna látnu. Hér sést hún ásamt eiginmanni sínum. Facebook
Ítalska lögreglan hefur handtekið mann sem sagður er hafa notað eitur til að myrða það sem hann taldi vera „siðspillta“ fjölskyldumeðlimi sína.

Maðurinn, hinn 27 ára gamli Mattia Del Zotto, hafði komið hinu eitraða efni þallíni fyrir í mat afa síns, ömmu sinnar og frænku sem varð þeim öllum að bana. Þallín, sem er mjúkur málmur, leysist upp í vatni og er lyktar- og bragðlaus.

Fimm aðrir fjölskyldumeðlimir voru fluttir á sjúkrahús þar sem reynt verður að hjúkra þeim til heilsu.

Del Zotto var handtekinn í Monza, nærri Mílanóborg, eftir að lögreglan fann kvittanir fyrir eiturkaupunum á tölvu hans.

Eftir handtökuna játaði maðurinn að hafa eitrað fyrir fjölskyldumeðlimum sínum sem hann sagði vera „siðspillta,“ að sögn ítalskra saksóknara.

Að sögn ítalskra fjölmiðla hafði Del Zotto gengið í sértrúarsöfnuð fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×