Erlent

Frans páfi vill breyta „Faðir vorinu“

Atli Ísleifsson skrifar
Frans páfi lét orðin falla í viðtali á miðvikudag.
Frans páfi lét orðin falla í viðtali á miðvikudag. Vísir/AFP
Frans páfi vill gera breytingar á Faðir vorinu þar sem hann telur að setningin „eigi leið þú oss í freistni“ ekki eiga heima í bæninni.

Telegraph greinir frá því að páfinn óski eftir að breyting verði gerð á þessari þekktustu bæn kristninnar innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Páfinn vill meina að hægt sé að túlka umrædda setningu á þann veg að guð sé þess megnugur að leiða fólk í freistni. Þessu sé páfi ósammála og vill hann meina að inntak setningarinnar eigi að vera að „láta okkur ekki falla í freistni“. Verði sú breyting gerð verði ekki um það deilt að það sé manneskjan og breyskleiki hennar sem sé ástæða þess að hún láti undan freistingum.

Páfin opinberaði skoðun sína í viðtali þar sem hann sagði hina hefðbundnu setningu „ekki vera góða þýðingu“.

„Ég er sá sem fellur. Það er ekki Hann sem þrýstir á mig til að falla í freistni. […] Faðir gerir það ekki. Faðir hjálpar okkur að umsvifalaust standa aftur upp. Það er Satan sem leiðir okkur í freistni, það er hans deild,“ segir páfinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×