Erlent

Schulz vill sjá Bandaríki Evrópu verða að veruleika

Atli Ísleifsson skrifar
Martin Schulz sagði í ræðu sinni að Evrópa myndi ekki þola fjögur ár til viðbótar af þýskri Evrópustefnu "a la Schäuble“.
Martin Schulz sagði í ræðu sinni að Evrópa myndi ekki þola fjögur ár til viðbótar af þýskri Evrópustefnu "a la Schäuble“. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari mun hefja viðræður við Martin Schulz, leiðtoga Jafnaðarmanna, og Horst Seehofer, leiðtoga Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, á miðvikudag um möguleika á stjórnarmyndun. Frá þessu greina þýskir fjölmiðlar í morgun.

Tilkynninigin kemur í kjölfar fundar Jafnaðarmanna í gær þar sem formanninum Martin Schulz var gefin heimild til að ræða við Merkel um mögulega framlengingu á stjórnarsamstarfi flokkanna.

Á fundi Jafnaðarmanna lýsti Schulz því yfir að hann vilji sjá myndun „Bandaríkja Evrópu“ verða að veruleika fyrir árið 2025. Þá sagðist hann vilja efla þýska almannatryggingakerfið og að unnið verði að áætlun um hvernig draga skuli úr kolanotkun í landinu.

Schulz sagði í ræðu sinni að Evrópa myndi ekki þola fjögur ár til viðbótar af þýskri Evrópustefnu „a la Schäuble“ og vísar þar til aðhaldsaðgerða sem þýski fjármálaráðherrann Wolfgang Schäuble þrýsti á, meðal annars gagnvart Grikklandi.

Schulz sagði flokksmönnum að hann vildi að leiðtogar aðildarríkja ESB myndu samþykka stjórnarskrá sem myndi leiða til stofnun sambandsríkis Evrópu. Líklegt þykir að tillagan muni mæta andstöðu Merkel og annarra leiðtoga aðildarríkja sambandsins. Sagði Schulz að hann vildi að öll þau ríki sem myndu neita að undirrita slíka stjórnarskrá myndu sjálfkrafa yfirgefa sambandið.

Merkel leiðir nú starfsstjórn en kosningar fóru fram í landinu þann 24. september. Viðræður Kristilegra demókrata, Frjálslynda flokksins FDP, og Græningja um stjórnarmyndun runnu út í sandinn í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×