Erlent

Hvar eru hinir meðlimir „Manson-fjölskyldunnar“?

Samúel Karl Ólason skrifar
Charles Manson í desember 1969.
Charles Manson í desember 1969. Vísir/Getty
Charles Manson, einn frægasti glæpamaður Bandaríkjanna, lést gær. Hann var 83 ára gamall og dó í Corcoran-fangelsinu í Kaliforníu þar sem hann hefur setið inni í tæp 30 ár. Árið 1969 leiddi Charles Manson hóp fólks sem fylgdi honum í einu og öllu. Í ágúst það ár fóru fylgjendur Manson á kreik og myrtu sjö manns á tveimur dögum.

Meðal fórnarlamba Manson og fylgjenda hans var leikkonan Sharon Tate, sem þá var komin átta mánuði á leið. Fjórir gestir hennar voru einnig myrtir á heimili hennar og leikstjórans Roman Polanski. Seinna kvöldið myrti hópurinn verslunareigandann Leno LaBianca og eiginkonu hans, Rosemary.

Fórnarlömbin voru myrt á hrottalegan hátt.

Markmið morðanna, sem áttu að líta út fyrir að vera af handahófi, var að koma sökinni á aðgerðarhópa svartra og koma þannig af stað stríði á milli kynþátta í Bandaríkjunum. Morðin hafa gengið undir nafninu Tate-LaBianca morðin.

Rannsakendur sögðu þó að morðin hefðu einnig verið framin vegna reiði Manson eftir að umboðsmenn í Hollywood neituðu að gera samning við hann. Manson var sannfærður um að hann væri mikill tónlistarsnillingur.

Auk Manson voru minnst tíu aðrir í „Manson-fjölskyldunni“ svokölluðu. Einungis fimm þeirra voru þó dæmd vegna Tate-LaBianca morðanna. Öll fimm voru þau dæmd til dauða árið 1971. Árið 1972 voru dómarnir mildaðir í lífstíðarfangelsi þar sem Hæstiréttur Kaliforníu felldi dauðarefsinguna niður.

Ásamt Manson voru þau Patricia Krenwinkel, Leslie Van Houten, Susan Atkins og Charles „Tex“ Watson dæmd fyrir Tate-LaBianca morðin. Konurnar þrjár voru dæmdar á sama tíma og Manson en Watson var dæmdur eftir önnur réttarhöld.

Á meðan á réttarhöldunum stóð viðurkenndu þær Krenwinkel, Van Houten og Atkins góðfúslega að þær hefðu framið morðin og sögðust þær elska Manson. Þær þrjár gengu undir nafninu Charlie's Girls.

New York Times og NBC News hafa farið yfir hvar helstu fylgjendur Manson eru í dag.

Susan Atkins í dómsal 1969.Vísir/Getty

Susan Atkins - Dó í fangelsi

Susan Atkins var átján ára gömul þegar hún fór frá heimili sínu í norðurhluta Kaliforníu. Hún hefur seinna sagt að foreldrar hennar hafi verið alkóhólistar og að hún hafi verið misnotuð af ættingja sínum. Skömmu eftir að hún fór að heiman hitti hún Manson og eignaðist hún son árið 1968. Sá mun þó ekki vera sonur Manson.

Hún var handtekin árið 1969 fyrir að myrða Gary Hinman, sem var vinur Manson. Þá vissu yfirvöld ekki hverjir hefðu framið Tate-LaBianca morðin en Atkins viðurkenndi það fyrir klefafélaga sínum í fangelsi. Hún sagðist hafa stungið Tate, bragðað blóð hennar og skrifað „Svín“ á útidyr hússins með blóðinu.

Árið 1974 frelsaðist Atkins. Hún fordæmdi Manson og stundaði góðgerðastörf frá fangelsinu. Hún sóttist átján sinnum eftir því að fá reynslulausn en var ávalt hafnað. Hún giftist tveimur mönnum á meðan hún sat í fangelsi. Hún dó árið 2009 vegna heilaæxlis.



Leslie Van Houten - Fyrirmyndarfangi

Leslie Van Houten, sem nú er 68 ára gömul, var dæmd fyrir að stinga Rosemary LaBianca til bana og sagðist hún minnast þess að hafa stungið hana 14 til 16 sinnum í kviðinn. Þá sagðist hún einnig muna að hafa tekið kakó og ost úr ísskápi LaBianca hjónanna áður en hún fór þaðan.

Hún er sögð hafa verið fyrirmyndarfangi á meðan hún sat inni og segist sjá eftir því að hafa tekið þátt í morðunum. Þar að auki segir Van Houten að hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða og tekið mikið af LSD á þessum tíma.

„Ég trúði því að hann væri Jesús Kristur,“ sagði hún mörgum árum eftir morðin.

Umsókn hennar um reynslulausn var samþykkt í fyrra en Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu felldi þann úrskurð niður. Henni var þó aftur veitt reynslulausn nú í september þar sem henni verður sleppt í 150 daga. Brown mun svo taka ákvörðun um hvort henni verði sleppt að fullu að þeim tíma liðnum.



Patricia Krenwinkel - Yfirgaf allt

Hin 19 ára gamla Patricia Krenwinkel hitti Charles Manson í samkvæmi og þremur dögum seinna sleit hún sig frá öllu í hennar lífi til að fylgja honum. Hún viðurkenndi að hafa elt Abigail Ann Folger á heimili Tate og stungið hana ítrekað. Þegar lögregluþjónar fundu Folger töldu þeir að hvítur kjóll hennar væri rauður.

Hún viðurkenndi einnig að hafa komið að LaBianca morðunum.

Krenwinkel er núna 69 ára gömul og hefur setið í fangelsi í 47 ár. Lengst af öllum konum sem hafa setið inni í Kaliforníu. Henni hefur einnig verið lýst sem fyrirmyndarfanga og segist sjá eftir aðgerðum sínum.

Hún hefur sótt minnst þrettán sinnum um reynslulausn og hefur henni alltaf verið neitað.

Charles Watson.Vísir/Getty

Charles „Tex“ Watson - Eignaðist fjögur börn í fangelsi

Sá sem er sagður hafa leitt grimmileg morð Manson-fjölskyldunnar heitir Charles Watson. Hann var mikill náms- og íþróttamaður og bjó með Charles Manson um tíma. Eftir morðin flúði hann aftur heim til sín í Texas þar sem hann var handtekinn. Watson barðist lengi gegn því að verða framseldur til Kaliforníu að á endanum var réttað yfir honum einum og sér.

Hann er nú 71 árs og innan veggja fangelsis lærði hann til prests. Hann eignaðist fjögur börn með konu sinni en þegar yfirvöld Kaliforníu komu í veg fyrir að þau gætu hist yfirgaf hún Watson og giftist öðrum manni.



Fleiri meðlimir sem voru ekki dæmdir 

Þau fjögur sem voru dæmd ásamt Manson eru ekki þau einu sem tilheyrðu fjölskyldu hans.

Hin tuttugu ára gamla Linda Kasabian ók flóttabílnum bæði kvöld Tate-LaBianca morðanna og varð hún lykilvitni yfirvalda gegn Manson og fylgjendum hans. Fyrir það fékk hún friðhelgi gagnvart lögsókn. Hún sagðist ekki hafa tekið beinan þátt í morðunum og að eina ástæðan fyrir því að hún hefði ekki tilkynnt Manson til lögreglu hafi verið að hún óttaðist um öryggi dóttur sinnar.

Hún hafði verið alin upp í New Hampshire og flutti með eiginmanni sínum til Los Angeles. Hún gekk til liðs við fjölskyldu Manson í júlí 1969 eftir að hafa skilið við eiginmann sinn.

Kasabian fluttist aftur til New Hampshire og er nú 68 ára gömul.

Lynette Fromme var í fjölskyldu Charles Manson en var aldrei ákærð fyrir aðild að Tate-LaBianca morðunum. Hún var þó handtekinn árið 1975 við að reyna að ráða Gerald Ford, forseta Bandaríkjanna, af dögum.

Hún er nú 64 ára gömul og sat inni í 34 ár. Henni var sleppt á reynslulausn árið 2009.

Mary Brunner var ein af fyrstu meðlimum „Manson-fjölskyldunnar“ og eignaðist son með Charlie Manson. Hún kom ekki nálægt Tate-LaBianca morðunum en hún var handtekin árið 1971. Þá hafði hún rænt byssuverslun og ætlaði sér að frelsa Manson úr fangelsi.

Brunner særðist í skotbardaga við lögreglu. Hún var dæmd í fangelsi en var sleppt árið 1977.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×