Handbolti

„Við eigum að læra af stelpunum en ekki tala þær niður“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar urðu Evrópumeistarar fyrir ári síðan.
Norsku stelpurnar urðu Evrópumeistarar fyrir ári síðan. Vísir/AFP
Stærsta stjarna karlalandsliðs Norðmanna í handbolta er ósáttur við þá sem reyna að gera lítið úr árangri norska kvennalandsliðsins á síðustu árum.

Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska landsliðinu eru á leiðinni inn á HM í Þýskalandi í næsta mánuði og geta þar varið heimsmeistaratitilinn sinn. Þær eru einnig ríkjandi Evrópumeistarar.

Norska karlalandsliðið náði öðru sæti á HM í Frakklandi í janúar sem er besti árangur liðsins á stórmóti frá upphafi. Sander Sagosen er ein aðalstjarna liðsins en hann er leikmaður franska liðsins Paris Saint-Germain. 

Sander Sagosen gekk í raðir PSG fyrir tímabilið.vísir/getty
Sagosen er 22 ára gamall og einn efnilegasti handboltamaður heims. Hann hefur þegar spilað 64 landsleiki fyrir Noreg og var valinn í úrvalslið á bæði HM 2017 og EM 2016.

Norsku stelpurnar hafa spilað 25 leiki í röð án þess að tapa en síðasta tapið kom í undanúrslitaleik Ólympíuleikanna í Ríó 2016. Vinni norska liðið gullið á HM í Þýskalandi verða það sjöundu gullverðlaun liðsins undir stjórn Þóris Hergeirssonar. 

„Þær standa sig frábærlega aftur og aftur og það koma einnig alltaf upp nýir leikmenn sem verða heimsstjörnur á einni nóttu. Þær koma með stelpurnar inn í kerfi sem þau hafa notað lengi,“ sagði Sander Sagosen í viðtali við NTB en Dagbladet segir frá.

„Þær hafa haldið sér við toppinn svo lengi og ég ber mikla virðingu fyrir því. Við eigum að læra af stelpunum en ekki tala þær niður,“ sagði Sagosen. 

Heidi Loke, til hægri, hefur fagnað mörgum sigrum með norska handboltalandsliðinu á síðustu árum. Hér er hún með Camillu Herrem á ÓL í Ríó.Vísir/AFP
„Gagnrýnendurnir segja að það séu ekki svo margir sem stundi kvennahandbolta. Það eru heldur ekki svo margir sem stunda skíðaíþróttir fyrir utan Noreg. Sú staðreynd að Noregur er á toppnum í handboltaheiminum á skilið virðingu. Kvennahandboltinn er jafnstór og margar aðrar íþróttir og af hverju ættum við að tala hann niður?,“ spyr Sagosen. 

Sagosen talar líka mjög vel um Stine Bredal Oftedal sem er fyrirliði norska liðsins. Hún er systir kærustu hans, Hanna Bredal Oftedal.

„Hún er svo góð manneskja og hugsar svo vel um alla. Kannski gæti ég lært svolítið af henni,“ sagði Sagosen.

HM í Þýskalandi fer fram 1. til 17. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×