Enski boltinn

Lukaku öskraði á liðsfélaga sína

Lukaku vildi fá betri þjónustu frá liðsfélögum sínum á Stamford Bridge.
Lukaku vildi fá betri þjónustu frá liðsfélögum sínum á Stamford Bridge. Vísir // Getty Images
Ef marka má fréttir the Sun var Romelu Lukaku, framherji Manchester United, allt annað en sáttur með liðsfélaga sína eftir 1-0 tap þeirra gegn Chelsea á Stamford Bridge síðasta sunnudag.

Heimildir herma að Lukaku hafi öskrað á liðsfélaga sína í klefanum eftir leik og látið í ljós óánægju sína með þá þjónustu sem hann hefur fengið í síðustu leikjum liðsins.  

Eftir góða byrjun Lukaku á þessu tímabili hefur belgíski sóknarmaðurinn ekki skorað í seinustu 7 deildarleikjum United.

Jose Mourinho, þjálfari United, varði Lukaku í viðtali eftir leikinn gegn Chelsea og sagði að þetta snérist ekki bara um tölfræði. Lukaku væri hungraður, hugarfar hans gott og það sé einungis tímaspursmál hvenær hann byrji aftur að skora.

Lukaku er væntanlega ekki jafn ósáttur með liðsfélaga sína í belgíska landsliðinu en hann skoraði tvö mörk í 3-3 jafntefli í æfingarleik gegn Mexikó síðasta föstudag. 

Seinna mark Lukaku var 30. mark hans fyrir Belgíu. Hann er því kominn í hóp þeirra van Himst og Voorhoof yfir markahæstu leikmenn Belgíu frá upphafi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×