Innlent

Óvenju mikið álag á sjúkraflutningamönnum á Suðurlandi í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar millilenti í Eyjum til að fá eldsneyti.
Þyrla Landhelgisgæslunnar millilenti í Eyjum til að fá eldsneyti. Vísir
Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningamönnum á Suðurlandi í dag. Kalla þurfti út allsherjarútkall og óska eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar sem og sjúkrabíls frá Reykjavík. 

Fyrsta útkallið barst rétt fyrir hádegi þar sem bíll hafði ekið útaf nálægt Kirkjubæjarklaustri. Skömmu síðar var tilkynnt um alvarleg veikindi á Holsvelli og tveimur mínútum síðar var tilkynnt um umferðarslys á Suðurlandsvegi þar sem tveir bílar skullu saman.

Allt tiltækt lið var sent á slysstað á Kirkjubæjarklaustri en þá barst útkallið á Hvolsvelli.

„Þá kemur útkall ofan á það í Hveragerði sem við þurftum að fá bíl úr Reykjavík til að fara í. Ofan í það kemur annað alvarlegt útkall, sem bíllinn frá Kirkjubæjarklaustri fer í,“ segir Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, í samtali við Vísi.

„Þetta er komið út í að við þurftum að kalla út allsherjarútkall hjá okkur og við þurftum að fá aðstoð frá Reykjavík til að geta sinnt útköllum. Við ætluðum að fá bílinn úr Reykjavík bara til að dekka svæðið okkar á meðan en hann lenti svo í útkalli líka. Þannig að þetta er svona algjörlega í það mesta.“

Þyrlan millilenti með sjúkling

Styrmir segir að mikið álag hafi einnig verið á lögreglunni og slökkviliði í Vík sem voru einnig send á vettvang umferðarslyssins á Suðurlandsvegi.

„Þetta fór betur en á horfðist en engu að síðu einn einstaklingur fluttur með þyrlunni í Fossvog,“ segir Styrmir.

Álagið á þyrlu Landhelgisgæslunnar var raun svo mikið að hún þurfti að millilenda í Vestmannaeyjum með einn sjúkling um borð til að fá eldsneyti áður en annar sjúklingur var sóttur. 

„Þyrlan tekur fyrri sjúklinginn upp á Hellu, fer svo með þann sjúkling með sér til Eyja og tankar og nær í hinn sjúklinginn og flýgur svo með báða í bæinn. Þeir mátu ástandið þannig að sjúklingurinn sem fyrir var, hann var stabíll og þeir töldu þetta vera í lagi.“


Tengdar fréttir

Alvarlegt umferðarslys á Skógasandi

Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi nú á öðrum tímanum í dag þegar tveir bílar skullu saman á veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×