Viðskipti innlent

Félag í eigu Guðmundar í Brim hagnast um 6,7 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Mikill hagnaður Stillu útgerðar í fyrra kemur að mestu leyti til af því að bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánsson færðu öll bréf sín í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV) yfir á sjávarútvegsfyrirtækið Brim, sem er einnig í eigu bræðranna.
Mikill hagnaður Stillu útgerðar í fyrra kemur að mestu leyti til af því að bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánsson færðu öll bréf sín í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV) yfir á sjávarútvegsfyrirtækið Brim, sem er einnig í eigu bræðranna.
Stilla útgerð, í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona, hagnaðist um 6,7 milljarða króna í fyrra. Er það mikil aukning frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam 239 milljónum króna.

Mikill hagnaður Stillu útgerðar í fyrra kemur að mestu leyti til af því að bræðurnir færðu öll bréf sín í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV) yfir á sjávarútvegsfyrirtækið Brim, sem er einnig í eigu bræðranna, í mars árið 2016, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Í árslok 2015 áttu Guðmundur og Hjálmar 25 prósenta hlut í VSV í gegnum Stillu og átti Guðmundur þar að auki fjögur prósent í eigin nafni og Hjálmar 1,85 prósent í gegnum félagið KG Fiskverkun. Brim eignaðist um þriðjungshlut í VSV þegar bræðurnir færðu öll bréf sín í félaginu yfir á sjávarútvegsfyrirtæki sitt.

Greindi DV frá því í apríl 2016 að bréfin í VSV, sem bræðurnir færðu yfir á Brim, væru metin á 11,5 milljarða króna. Félagið Seil, sem er meðal annars í eigu Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar, framkvæmdastjóra VSV, er eftir sem áður stærsti hluthafi VSV með um 41 prósents hlut.

Eignir Stillu útgerðar námu 11,3 milljörðum króna í lok síðasta árs borið saman við 2,9 milljarða í lok árs 2015. Var eiginfjárhlutfallið 71,4 prósent í árslok 2016, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×