Erlent

Spilaframleiðandi reynir að tefja uppbyggingu landamæraveggs Trump

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Trump hyggst láta reisa vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Trump hyggst láta reisa vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Mynd/AFP
Spilaframleiðandinn Cards Against Humanity hefur keypt lóð á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna í þeim tilgangi að tefja uppbyggingu landamæraveggs Donald Trump.

Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins sem sett er fram á gamansömum nótum.

Framleiðandinn hefur fengið til liðs við sig lögfræðinga sem eiga að sjá til þess að tefja fyrirhugaða uppbyggingu á landamæraveggnum sem forsetinn vill láta reisa.

Fyrirtækið býður fólki upp á að eignast hlut í landinu á fimmtán dollara og mun það í kjölfarið fá upplýsingar um staðsetningu landsvæðisins. Enn hefur ekki verið gefið út hvar það er staðsett.

Cards Against Humanity hefur notið mikilla vinsælda víða um heim og eru framleiðendur þess þekktir fyrir uppátækjasöm athæfi. Til að mynda hafa þeir boðið fólki að borga fyrirtækinu fimm dollara til þess eins að fá ekkert í staðinn. Auk þess hafa þeir safnað 100 þúsund dollurum til þess að grafa holu ofan í jörðina, í engum sérstökum tilgangi. Furðulegasta fjáröflun spilaframleiðandans var þó vafalaust þegar hann bauð viðskiptavinum sínum að kaupa kassa af kúaskít, en um það bil 30 þúsund kassar seldust.

Hér má sjá myndbandstilkynningu frá Cards Against Humanity í kjölfar kaupanna á landsvæðinu í Mexíkó og Bandaríkjunum. Einnig er hægt að lesa tilkynninguna í heild á vefsíðu spilaframleiðandans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×