Innlent

Síðasta samtal Jóhönnu og Davíðs: „Ég varð um tíma að halda símtólinu vel frá mér, svo æstur var hann“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mynd frá því í apríl 1995. Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka, ræðir við blaðamann, og í baksýn má sjá annan blaðamann ræða við Davíð Oddsson, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Mynd frá því í apríl 1995. Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka, ræðir við blaðamann, og í baksýn má sjá annan blaðamann ræða við Davíð Oddsson, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. vísir/gva
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, var ekkert sérstaklega hrifinn af því þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að gera þyrfti breytingar á stjórn Seðlabanka Íslands í febrúar 2009, ef marka má frásögn Jóhönnu sjálfrar í bókinni Minn tími - saga Jóhönnu Sigurðardóttur sem kemur út hjá Forlaginu í dag.

Hringdi Davíð til að mynda fyrirvaralaust í Jóhönnu einn daginn vegna málsins og segir hún frá því hvernig hún þurfti að halda símtólinu vel frá sér þar sem Davíð hafi verið svo æstur.

Páll Valsson ritar sögu Jóhönnu sem árið 2009 varð fyrsta íslenska konan til að verða forsætisráðherra á einhverjum erfiðustu tímum í sögu þjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Jóhanna varð fyrst forsætisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem Framsóknarflokkurinn varði falli, í febrúar 2009. Hún varð síðan formaður Samfylkingarinnar í mars sama ár og eftir kosningarnar vorið 2009 tók hún forsæti í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Í bókinni segir Jóhanna frá því hvernig staðið var að þessum breytingum en alls voru þrír bankastjórar í Seðlabankanum, þeir Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og svo Davíð Oddsson, gamall andstæðingur Jóhönnu úr stjórnmálunum.

Allir fengu seðlabankastjórarnir bréf frá Jóhönnu þann 2. febrúar 2009 þar sem þeim var greint frá því að lagt yrði fram frumvarp um að ráðinn yrði einn seðlabankastjóri á faglegum forsendum að undangengnum hæfniskröfum.

Vísir birtir hér fyrir neðan brot úr bók Páls Valssonar um sögu Jóhönnu Sigurðardóttur sem segir frá upphafsdögum fyrsta ráðuneytis hennar og breytingunum á stjórn Seðlabanka Íslands. Skáletruðu kaflarnir eru það sem höfundur bókarinnar hefur beint eftir Jóhönnu sjálfri:

Jóhanna Sigurðardóttir kynnir utanþingsráðherra í minnihlutastjórn sinni veturinn 2009, þau Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússon.vísir/pjetur

Land reist úr rústum

Þetta voru yfirþyrmandi verkefni sem blöstu við og við dembdum okkur bara beint í verkin enda voru þetta endalausar bráðaaðgerðir sem þoldu enga bið. Ég tók einn dag í einu og hver dagur var langur, ég vann myrkranna á milli í orðsins fyllstu merkingu, því ég vildi líka hafa yfirsýn sem verkstjóri. Við réðumst til dæmis strax í að breyta stjórnarráðslögum til að gera kerfið skilvirkara. En ég fékk kraft við að finna að ég hafði traust bakland. Flokkurinn var heils hugar á bak við mig, það var gífurlega mikilvægt og þá reyndi ég að horfa jákvætt á hlutina. Það skipti mig miklu máli að hafa við hlið mér sterkan varaformann, Dag B. Eggertsson, traustan og ráðagóðan á hverju sem gekk. Ég hafði líka með mér í ráðuneytinu fólk sem ég treysti algjörlega og hafði unnið með áður, Hrannar öruggan mér við hlið og ég veit stundum ekki hvernig ég hefði komist yfir þetta erfiða verkefni án hans. Það skipti líka máli að Ragnhildur Arnljótsdóttir og Ágúst Geir Ágústsson lögfræðingur komu með mér úr félags­- og tryggingamálaráðuneytinu. Og bílstjórinn Sigurður Egilsson, því honum gat ég treyst, bílstjórar heyra ýmis trúnaðarsamtöl og þurfa að vera þagmælskir, að ógleymdum mínum góða ritara Kristínu Hjartardóttur.

Ég leit svo á að við mættum engan tíma missa, það var ekki tími til að læra á nýtt fólk heldur byggja á þeim sem maður gjörþekkti og treysti. Þetta var aðeins erfitt með Ragnhildi sem ég lagði kapp á að flytti með mér úr félagsmálaráðuneytinu, því í forsætisráðuneytinu var fyrir Bolli Þór Bollason, ágætur maður sem ég kunni vel við en taldi samt nauðsynlegt að skipta út, og sama átti við um Baldur Guðlaugsson í fjármálaráðuneytinu. Þeir höfðu staðið nálægt sínum ráðherrum. Ég fann aðeins anda köldu út af Bolla sem var vel liðinn enda ljúfur maður, en það hvarf strax þegar fólk fór að kynnast góðum kostum Ragnhildar. Bolli fór í sérverkefni og svo til Árna Páls í félagsmálaráðuneytið, Baldur í mennta­málaráðuneytið og Guðmundur Árnason í fjármálaráðuneytið. Ráðuneytisstjórar eru lykilfólk og í þeim efnum hef ég verið afskaplega heppin í gegnum tíðina. Ragna Árnadóttir var á þessum tíma lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Það kom í minn hlut að hafa samband við hana og biðja hana að taka að sér dómsmálin. Hún varð undrandi en þurfti lítið að hugsa sig um og sló til. Bæði voru þau Ragna og Gylfi mjög traust og skipti verulegu máli að hafa þau með í ríkisstjórn þegar við gengum í gegnum mestu erfiðleikana.



En þetta voru strangir og skrýtnir dagar. Afskaplega erfiðir flestir og þetta tók mjög á mig, en ég keyrði mig líka áfram. Það var erfitt að horfa upp á stöðu heimilanna til dæmis og hvað þetta var allt komið í mikið óefni. Þetta voru algjörlega fordæmalausar aðstæður. Menn mega ekki gleyma því. En þarna skipti líka meginmáli að með okkur Steingrími J. Sigfússyni tókst trúnaðarsamband. Og það reyndi mikið á það.

Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, seðlabankastjórar, kynna stýrivaxtaákvörðun þann 10. september 2008.vísir/pjetur
Eitt fyrsta verkefni nýrrar stjórnar var að endurnýja forystu Seðlabanka Íslands, enda var algert forgangsverkefni að reyna að endurnýja traust alþjóðasamfélagsins, sem og þjóðarinnar, á íslensku fjármálalífi. Seðlabankinn er þar kjölfesta og bankinn hafði farið illa út úr Hruninu, var tæknilega gjaldþrota og ýmsar ákvarðanir hans og framganga vikur og mánuði fyrir Hrun voru umdeild, til að mynda yfirtaka Glitnis og mikið tap bankans vegna hennar, svo og veðlánaviðskipti með skuldabréf bankanna, svokölluð ástarbréf, sem sumir töldu verstu mistök bankans og þau afdrifaríkustu. Það var hins vegar ekkert launungarmál að mestur styr stóð um formann bankastjórnar, Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem farið hafði mikinn vikurnar í kringum Hrunið. Lítið traust hafði verið frá upphafi milli Davíðs og forystu Samfylkingar, svo vægt sé til orða tekið. En sé horft á málið utan frá, og burtséð frá öllum persónulegum eða stjórnmálalegum forsendum, þá voru vitaskuld veigamikil fagleg rök fyrir því að skipta um bankastjóra. Bankinn var rúinn trausti innanlands sem utan, og endurnýjuð  forysta nauðsynleg. Síðar var bent á í skýrslu Rannsóknarnefndar  Alþingis að afar óheppilegt hefði verið að fyrrverandi forystumaður í stjórnmálum til svo langs tíma skyldi veljast til að stjórna Seðlabankanum. Og hér verður auðvitað að nefna að Davíð Oddsson var ekki hvaða forystumaður sem er; fáir höfðu verið áhrifameiri í íslensku samfélagi í nærfellt þrjá áratugi né haft meiri völd. Davíð fór heldur ekki leynt með skoðanir sínar, til dæmis á íslenskum bönkum og bankamönnum, sem var kannski miður heppilegt einkenni á seðlabankastjóra en úti í hinum stóra heimi mega þeir vart taka til máls án þess að vísitölur fari á skrið.

Frá mótmælum á Austurvelli í október 2008 þar sem margir mótmælenda kölluðu eftir því að Davíð hætti sem seðlabankastjóri.vísir/valli
Nú þurfti Jóhanna sem sagt að skrifa þessum gamla samstarfsmanni sínum bréf og jafnframt freista þess að benda honum á að til þess að endurheimta traust á Seðlabankanum þyrfti hann að stíga til hliðar. Sjálfur hafði Davíð áður talað á Alþingi um „afsagnir bankastjóra“ sem „nauðsynlega forsendu þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik“ – árið 1998 þegar þrír bankastjórar Landsbankans sögðu af sér í kjölfar fyrirspurna Jóhönnu og umræðu um háan risnukostnað og bruðl. Hún reyndi því að leiða Davíð það fyrir sjónir að hið sama gilti nú um Seðlabankann – og hann sjálfan. Bréf hennar sem stílað er 2. febrúar 2009 er mjög hlutlægt og ópersónulegt, skírskotað er til þess að trú á fjármálakerfi Íslendinga hafi beðið hnekki og mat ríkisstjórnarinnar sé að traust á Seðlabankann verði ekki endurreist án breytinga á stjórnskipulagi bankans. Því verði lagt fram frumvarp um að ráðinn verði einn seðlabankastjóri, sem ráðinn verði á faglegum forsendum að undangengnum hæfniskröfum. Starf Davíðs og hinna bankastjóranna verði því lagt niður, en stjórnin fer þess á leit við þá að þeir biðjist lausnar til þess að „leggjast á sveif með stjórnvöldum í viðleitni þeirra til að endurvekja trúverðugleika og traust á Seðlabanka Íslands, enda megi ætla að mannabreytingar einar og sér geti verið til þess fallnar (skál. höf.)“ og lofað er starfslokasamningum í samræmi við lög og rétt.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynna minnihlutastjórnina í febrúar 2009.vísir/daníel
Í ljósi þess sem á eftir fylgdi má ætla að skáletraða aukasetningin hafi verið nokkuð dýrkeypt, hún hafi hleypt illu blóði í Davíð. Því fór nefnilega fjarri að hann hygðist „leggjast á sveif “ með stjórnvöldum og brást hann þannig við að nær allur febrúarmánuður, drjúgur hluti af lífi hinnar skammvinnu minnihlutastjórnar, fór í að skipta um stjórn í Seðlabankanum. Ingimundur Friðriksson brást strax við og sagði upp, og Eiríkur Guðnason sagðist fús til að láta af störfum 1. júní. Davíð Oddsson sendi á hinn bóginn langt bréf þar sem hann hafnaði því algjörlega að láta af störfum, sagðist ekki ætla að taka upp á því allt í einu að hætta í miðju verki. Hann hafnaði líka rökstuðningi bréfs Jóhönnu, sagði fráleitt að hann, „háskólamenntaður lögfræðingur, með víðtækari reynslu við stjórn efnahags- og peningamála en flestir, sé verr til þess fallinn að gegna seðlabankastjórastarfi en maður sem getur veifað tiltekinni prófgráðu, til að mynda í peningamálahagfræði“. Davíð fór um víðan völl í bréfi sínu og sá öll tormerki á því að fallast á málaleitan ráðherrans, sem nú sat í hans gamla sæti.

Kápa bókarinnar Minn tími - saga Jóhönnu Sigurðardóttur eftir Pál Valsson.
Jóhanna gefur í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem hún  lýsir miklum vonbrigðum með afstöðu Davíðs og það mat hans að mannabreytingar í Seðlabankanum muni ekki auka traust og trúverðugleika bankans.

„Það er hans afstaða og verður hann að taka ábyrgð á henni,“ segir Jóhanna þar og jafnframt að hún muni ekki bregðast við einstökum atriðum í bréfi bankastjórans heldur vinna áfram að því að „skapa frið um helstu stofnanir samfélagsins“. En samskiptum þeirra var ekki lokið:

 

Þetta var hið erfiðasta mál og viðbrögð Davíðs gerðu allt verra. Ég fundaði með Ingimundi og Eiríki, það voru erfiðir fundir og mér leið ekki vel með þetta þeirra vegna, en sá enga aðra leið en að skipta þeim öllum út. Það ríkti skortur á trausti og trúnaði í alþjóðlegu samhengi, við höfðum orðið rækilega vör við það. Davíð svaraði engu, en svo hringdi hann í mig fyrirvaralaust einn daginn og jós úr skálum reiði sinnar yfir mig. Ég varð um tíma að halda símtólinu vel frá mér, svo æstur var hann. Kjarninn í máli hans var eiginlega setningin: „Þið komið ekki svona fram við mig“, þetta væri ósvífni og hann heimtaði aftur og aftur að fá að vita hvaða lög­fræðingar hefðu samið bréfið, því þeir væru „ósvífnir götustrákar“. Hann vísaði líka í ágætt samstarf okkar áður og spurði hvernig ég gæti í því ljósi komið svona fram við hann. Davíð var allsendis ófær um að meta stöðu sína kalt og hlutlægt, heldur horfði á málið eingöngu út frá sínum persónulegu forsendum. Það var sama hvað ég reyndi að skýra út fyrir honum að þetta væri nauðsynlegt út frá sjónarmiðum bankans og þjóðarinnar, hann kom alltaf aftur að þessu: „Já, en þið getið ekki komið svona fram við mig, fyrrverandi forsætisráðherra.“ Þetta reyndist vera síðasta samtal okkar Davíðs.

Þetta var hins vegar ekki í síðasta skiptið sem Davíð talaði um Jóhönnu, því eftir að frumvarp stjórnarinnar  um breytingu á lögum um Seðlabankann fór loksins í gegn í þinginu varð Davíð að yfirgefa bankann. Haustið 2009 var hann hins vegar ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins og hóf þaðan að skrifa ótt og títt um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, og fann henni allt til foráttu. Bar margt af því merki þess að skrifari teldi sig eiga harma að hefna. Ekki síst var Davíð mjög uppsigað við norskan eftirmann sinn í Seðlabankanum, Svein Harald Øygard, sem ráðinn var tímabundið í starfið.


Tengdar fréttir

Ætla að skipta um yfirstjórn seðlabankans

Í verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að skipt verði um yfirstjórn Seðlabanka Íslands og lögum um Seðlabankann breytt þannig að skipaður verði einn seðlabankastjóri sem ráðinn verður á faglegum forsendum.

Ekki frumvarp um að reka mig segir Davíð

Ný lög um Seðlabankann ættu ekki að verða til þess að starf bankastjóra yrði auglýst, segja sitjandi bankastjórar. Þeir gagnrýna mjög seðlabankafrumvarpið.

Davíð burt von bráðar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra reiknar með að Alþingi samþykki lög um Seðlabanka Íslands í vikunni og að hún skipi um leið nýjan aðalbankastjóra og aðstoðarbankastjóra til bráðabirgða. Hún telur að núverandi bankastjórar Seðlabankans yfirgefi bankann innan fárra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×