Erlent

Hægriöfgamenn sviptir staðfestingu á Twitter

Kjartan Kjartansson skrifar
Reikningur hvíta þjóðernissinnans Richards Spencers er einn þeirra sem Twitter vottar ekki lengur að tilheyri honum.
Reikningur hvíta þjóðernissinnans Richards Spencers er einn þeirra sem Twitter vottar ekki lengur að tilheyri honum. Vísir/AFP
Samfélagsmiðillinn Twitter hefur ákveðið að svipta áberandi boðbera hægriöfgastefnu vottun á miðlinum. Á meðal þeirra sem Twitter veitir ekki lengur staðfestingu er einn skipuleggjenda samkomu hvítra þjóðernissinna í Charlottesville í Bandaríkjunum í sumar sem endaði með óreirðum og dauða mótmælanda.

Þekktir einstaklingar geta fengið sérstaka vottun frá Twitter sem staðfestir hver stendur að baki honum. Vottunin birtist sem blár hringur sem hakað er við í forritinu. Hver sem er hefur þó getað fengið slíka vottun frá því í fyrra.

Stjórnendur Twitter segja að notendur hafi túlkað vottunina sem stuðning eða viðurkenningu á mikilvægi þeirra einstaklinga sem fá hana. Þess vegna hafi þeir ákveðið að breyta fyrirkomulaginu á henni, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Þeir hafi tekið vottunina af notendum sem brjóti gegn skilmálum Twitter.

Gagnrýnt hefur verið að þekktir öfgamenn hafi fengið vottun af þessu tagi á Twitter. Nú hefur Twitter svipt menn eins og Jason Kessler, sem kom að skipulagningu samkomunnar í Charlottesville í ágúst, og Richard Spencer, leiðtoga hvítra þjóðernissina í Bandaríkjunum, vottuninni. Tommy Robinson, stofnandi Enska þjóðvarðliðsins, hefur einnig misst sína vottun.

Skilmálar Twitter kveða á um að notendur geti misst vottun ef þeir kynda undir hatur á grundvelli kynþáttar, þjóðernis, uppruna, kynhneigðar, kyns, kynvitundar, trúar, aldurs, fötlunar eða sjúkdóms.  Stjórnendur Twitter segir að einnig sé tekið tillit til hegðunar notenda utan samfélagsmiðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×