Viðskipti innlent

Risarnir seldu kaffi fyrir 2,2 milljarða í fyrra

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kaffitár tapaði 10 milljónum í fyrra.
Kaffitár tapaði 10 milljónum í fyrra. Vísir/arnþór
Tekjur stóru kaffikeðjanna tveggja, Kaffitárs og Te og kaffi, námu alls rúmlega 2,2 milljörðum króna í fyrra. Afkoma þeirra var þó ólík og ljóst að nokkrar sviptingar hafa orðið í kaffibransanum.

Kaffitár, sem velti tæplega 1.100 milljónum, skilaði tapi annað árið í röð þó heldur minna en árið 2015. Í fyrra nam tapið 10,5 milljónum en var 19,7 milljónir árið áður.

Eftir verulega jákvæða afkomu árin 2012 og 2013 þar sem hagnaðurinn nam um og yfir 80 milljónum króna hafa síðustu þrjú rekstrarár verið erfið. Kaffitár stofnaði dótturfélagið Kruðerí árið 2015 sem sérhæfir sig í framleiðslu meðlætis með kaffi. Í skýrslu stjórnar segir að rekstur ársins 2016 hafi mótast nokkuð af uppbyggingu dótturfélagsins.

Í fyrra voru fest kaup á húsnæði að Stórhöfða 17 og opnað þar kaffihús og þá gerði félagið samning um veitingarekstur í Perlunni sem hófst í ár. Forstjóraskipti urðu hjá fyrirtækinu í fyrra þegar stofnandi og aðaleigandi Kaffitárs, Aðalheiður Héðinsdóttir, lét af störfum og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir tók við. Kaffitár rekur að auki kaffibrennslu og sjö kaffihús á höfuðborgarsvæðinu.

Te og kaffi, sem velti rúmum 1.150 milljónum króna, skilaði hagnaði upp á rúmar 6,5 milljónir króna árið 2016. Dregst hagnaður fyrirtækisins nokkuð saman milli ára en hann nam 19,7 milljónum árið 2015. Te og kaffi rekur 13 kaffihús samhliða kaffiframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×