Erlent

„Elsti simpansi í heimi“ er dauður

Atli Ísleifsson skrifar
Simpansinn Little Mama er allur.
Simpansinn Little Mama er allur. Lion Country Safari
Little Mama, sem talin er hafa verið elsti simpansi í heimi, er dauð.  Apinn er talinn hafa verið 79 ára og drapst í dýragarðinum Lion Country Safari í Flórída.

Í tilkynningu frá dýragarðinum kemur fram að afkomendur Little Mama og starfsmenn dýragarðsins hafi verið á staðnum þegar apinn gaf upp öndina.

Náttúrufræðingurinn Jane Goodall mat það sem svo árið 1972 að Little Mama hafi komið í heiminn í kringum árið 1938 og hefur verið haldið upp á afmælisdag hennar ár hvert á Valentínusardeginum, 14. febrúar.

Sinpansar sem lifa í náttúrunni verða vanalega milli fjörutíu og fimmtíu ára gamlir, en simpansar í dýragörðum milli fimmtíu og sextíu ára.

„Little Mama kann að hafa verið elsti lifandi simpansinn, en hún leit út fyrir að hafa verið mun yngri,“ segir í yfirlýsingunni frá dýragarðinum.

Little Mama hélt oft á tuskudýrum í búsi sínu og gerði það að vana sínum að vefja sig inn í teppi á morgnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×