Erlent

Fyrrverandi barnastjarna fordæmir kynferðislega hlutgervingu 13 ára gamallar leikkonu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Millie Bobby Brown er ein aðalstjarnan í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Stranger Things.
Millie Bobby Brown er ein aðalstjarnan í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Stranger Things. vísir/getty

Fyrrverandi barnastjarnan Mara Wilson, sem fór meðal annars aðalhlutverkið í kvikmyndinni Matilda 13 ára gömul, fordæmir kynferðislega hlutgervingu Stranger Things-leikkonunnar Millie Bobby Brown.

Síðustu daga og vikur hefur forsíða tímaritsins W Magazine og umfjöllun þess frá því í júní á þessu ári um kynþokkafyllstu leikarana og leikkonurnar í sjónvarpi verið nokkuð til umræðu. Millie Bobby Brown er nefnilega þar á lista en hún er aðeins 13 ára gömul, fædd árið 2004.

Wilson hefur unnið sem leikkona síðan hún var fimm ára gömul. Hún skrifaði grein í Elle á þriðjudag þar sem hún furðaði sig á því hvers vegna fjölmiðlum og almenningi á samfélagsmiðlum þyki í lagi að koma með yfirlýsingar um líkama 13 ára gamallar stúlku.

Millie á frumsýningu Stranger Things á dögunum í leðurkjólnum sem sumir vilja meina að hafi gert þessa 13 ára gömlu stúlku fullorðna.vísir/getty

Wilson lýsir því að hún hafi fyllst viðbjóði og síðan orðið mjög reið eftir að hún las færslur frá fullorðnum karlmönnum á samfélagsmiðlum þar sem þeir lýstu því yfir að Millie Bobby Brown væri nú orðin fullorðin. Vefurinn Today sló því einnig upp en samhengið er það að Millie mætti í leðurkjól á frumsýningu seríu tvö af Stranger Things á dögunum.

„13 ára gömul stúlka er ekki fullorðin. Þessir fullorðnu einstaklinga kyngera sakleysið,“ skrifar Wilson í pistli sínum. Hún segir síðan frá því að jafnvel áður en hún kláraði barnaskóla hafi verið að byrjað að dreifa myndum af henni þar sem hún var „fótósjoppuð“ inn í barnaklám og þá fékk hún alls kyns skilaboð frá karlmönnum í gegnum netið.

Eins og áður sagði hefur umræða um umfjöllun W Magazine frá því í júní farið nokkuð hátt undanfarið. Er tímaritið gagnrýnt fyrir að hafa sett 13 ára gamla stúlku með í umfjöllun um hversu „kynþokkafullt“ sjónvarp er núna. Þannig sé verið að kyngera börn og ýta með því undir að það sé eðlilegt að girnast börn með umfjölluninni.

Undanfarnar vikur hefur kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi innan skemmtanabransans verið mjög til umræðu eftir að fjöldi kvenna steig fram og sakaði kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að brjóta á sér.

Auk þess hefur leikarinn Kevin Spacey verið sakaður um áreitni og þá segir leikarinn Corey Feldman að barnaníðshringur sé starfræktur í Hollywood.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×