Innlent

Telur yfirlýsingu Vöku ekki fyllilega í samræmi við raunveruleikann

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Ragna segir hafa gert allt sem í sínu valdi stendur til þess að treysta samningsstöðu stúdenta í málinu.
Ragna segir hafa gert allt sem í sínu valdi stendur til þess að treysta samningsstöðu stúdenta í málinu. Vísir/Vilhelm
Ragna Sigurðardóttir formaður Stúdentaráðs telur að yfirlýsing Vöku um meint vantraust hennar í máli er varðar byggingu nýrra stúdentagarða við Gamla garð sé ekki fyllilega í samræmi við raunveruleika málsins. Þetta sagði hún í samtali við Vísi.

Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands sendi frá sér yfirlýsingu sér fyrr í dag þar sem lýst er vantrausti á Rögnu og þess krafist að hún víki sem fulltrúi nemenda úr samráðshópi Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar Stúdenta um málið.

Taldi Vaka að seta Rögnu í Háskólaráði gerði það að verkum að Ragna hefði verið tvísaga í málflutningi og afstöðu sinni gagnvart málinu.

Vísir fjallaði um ályktunina í dag. 

Sjá einnig: Stefnir í harða deilu milli Félagsstofnunar stúdenta og Minjastofnunar vegna nýbygginga á háskólasvæðinu

Í samtali við Vísi fullyrðir Ragna að sér þyki óeðlilegt að ekki hafi verið rætt við hana um málið en í stað þess hafi Vaka blásið til Stúdentaráðsfundar með stuttum fyrirvara og neitað að gefa upp efni fundarins.

„Vaka óskaði eftir fundinum með tveggja daga fyrirvara og á fyrsta sólarhringnum var ekki gefið upp hvert efni fundarins ætti að vera. Daginn fyrir boðaðan fund gáfu þau upp að efni fundarins ætti að snúast um Gamla garð og í kjölfarið spurði ég hvort það væri óánægja með mig eða mína framkomu í málinu en fundarbeiðendur neituðu að upplýsa mig um það,“ segir Ragna.

Sjá einnig: „Með ólíkindum að stúdentar þurfi að standa í slag við Háskólann“

Hún segist hafa gert sitt besta til þess að halda Stúdentaráðsliðum vel upplýstum um málið og bendir á að á því fimm mánaða tímabili sem málið hefur verið til umræðu hafi Vaka aldrei komið athugasemdum á framfæri.

Þá telur Ragna að Vaka fari rangt með staðreyndir í ályktun sinni.

„Það er ekki rétt að ég hafi ekki greint frá bókuninni í Háskólaráði, ég greindi frá henni á fundi Stúdentaráðs þann 25. september. Þar greindi ég frá því að ég hafi gert tvær athugasemdir við bókun Háskólaráðs og að þær athugasemdir hafi verið samþykktar af ráðinu. Því er ekki rétt að ég leynt þessu efni fyrir Stúdentaráði,“ segir Ragna og segist hafa sett deilt fundargerð Háskólaráðs með öllum Stúdentaráðsliðum og hvatt til umræðna.

Ragna segir að ásakanir Vöku þess efnis að hún hafi ekki lagt ályktun Stúdentaráðs fyrir Háskólaráð eigi enga stoð í raunveruleikanum. „Ég óskaði eftir því að ályktun Stúdentaráðs yrði send á þá sem boðaðir voru á fund Háskólaráðs og sá til þess að hún yrði send með fundargögnum til ráðsins, sem var gert. Ég fjallaði um þessa ályktun á fundi Háskólaráðs og þar var hún rædd í að minnsta kosti hálftíma.“

Í Háskólaráði sitja tveir fulltrúar nemenda, annars vegar Ragna og hins vegar Þengill Björnsson sem tilnefndur var til setu í ráðinu af Vöku. Að sögn Rögnu samþykktu þau bæði bókun Háskólaráðs á þeim forsendum að breytingartillögur þeirra á bókuninni yrðu teknar til greina, sem var gert.

Fundargerð fá fundinum má sjá hér.

Ragna undrast á því hvers vegna forsvarsmenn Vöku ræddu ekki við Þengil um téðan fund og framgöngu Rögnu á honum en að hennar mati hefði þeim verið í lófa lagið að ræða við hann um fundinn.

Að mati Rögnu brýtur bókunin, eins og hún var samþykkt með breytingartillögunum, ekki í bága við ályktun Stúdentaráðs og tekið er skýrt fram í henni að ekki sé breyting á vilja Háskólans til að byggja stúdentaíbúðir á Háskólasvæðinu.

„Hins vegar er í bókuninni gert ráð fyrir boða þurfi til samráðs um endurskoðun á fyrirætlunum og við Þengill mátum það sem svo, að árangur myndi frekar nást fyrir stúdenta ef við tækjum þáttí þessu samráði og að stúdentar hefðu rödd í stað þess að hafna því alfarið.“

En voru stúdentar ekki búnir að þrýsta á Háskólann að framvindan í málinu yrði hröð? Var samþykkt bókunarinnar í Háskólaráði einhvers konar málamiðlun?

„Þegar ég samþykkti þessar ályktanir tók ég fram að það væri mikilvægt að þetta myndi ekki frestast um of. Ég hef alltaf talið mikilvægt að tímamörk séu á þessum framkvæmdum og það var ég sem stakk upp á því á fundi samráðshópsins að það yrði settur tímarammi á þetta verkefni og það er ástæðan fyrir því að það er frestur fram í miðjan desember til þess að ljúka verkinu,“ segir Ragna og fullyrðir að hún hafi  sannarlega gert allt í sínu valdi til þess að samningsstaða stúdenta yrði sem best í þessu máli.“

Aðspurð um hvort til greina komi að víkja úr áðurnefndum samráðshópnum segir Ragna að svo sé ekki en þess má geta að upphaflega stóð ekki til að nemendur sætu í hópnum. Hafi Ragna sjálf óskað eftir því að tveir nemendur myndu sitja í hópnum og fengið þá ósk uppfyllta. 

Þess má geta að fordæmi eru fyrir því að formaður Stúdentaráðs sitji í Háskólaráði og ekki eru nein ákvæði í reglum sem girða fyrir slíkt.  

Fréttin var uppfærð kl. 23:10


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×