Innlent

Vildu flytja sextán tonn af táragasi um Keflavíkurflugvöll

Bjarki Ármannsson skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Pjetur
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafnaði á dögunum beiðni erlends flugfélags um að fá að flytja sextán tonn af táragasi frá Kína til Venesúela með viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar segir að erindið hafi borist ráðuneytinu frá Samgöngustofu síðastliðinn föstudag en ekki kemur fram hvaða erlendi flugrekandi óskaði eftir því að fá að flytja gasið um flugvöllinn.

Flutningur hergagna um Ísland er ekki leyfður nema með sérstöku leyfi Samgöngustofu, sem þarf svo að hafa samráð við samgönguráðuneytið ef um er að ræða til dæmis mikið magn hergagna eða flutning inn á hættu- eða átakasvæði.

Mótmæli gegn sitjandi forseta, Nicolás Maduro, hafa staðið yfir í Venesúela frá því í vor og lögregla tekið á þeim með harðri hendi. Í tilkynningu Samgönguráðuneytisins segir að líta megi á Venesúela sem  „hættusvæði“ þar sem grundvallarmannréttindi séu ekki virt.

Þá mælist ráðuneytið til þess við Samgöngustofu að heimila engan flutning hergagna um íslenskt yfirráðasvæði án samráðs við ráðuneytið.

Fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að Kína sé meðal þeirra ríkja sem bjargað hefur ríkisstjórn Venesúela um búnað á borð við táragas. Bæði stjórnarandstaðan í Venesúela og ríkisstjórnir annarra landa hafa gagnrýnt stjórnvöld þar í landi fyrir að beita slíkum vopnum gegn mótmælendum.


Tengdar fréttir

ESB viðurkennir ekki kosningarnar í Venesúela

Alþjóðlegur þrýstingur á ríkisstjórn Venesúela eykst. ESB viðurkennir ekki umdeildar kosningar þar en beitir hana þó ekki refsiaðgerðum líkt og Bandaríkjamenn hafa þegar tilkynnt um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×