Enski boltinn

„Newcastle getur orðið jafn stórt og Man. City“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Newcastle hefur farið vel af stað í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Newcastle hefur farið vel af stað í ensku úrvalsdeildinni í vetur. vísir/getty
Shay Given segir að Newcastle United geti orðið jafn stórt og Manchester City ef kaup Amöndu Staveley á félaginu ganga í gegn.

Mike Ashley hefur sett Newcastle á sölu og Staveley, sem er vellauðug kaupsýslukona, vonast til að klára kaupin á félaginu fyrir jól.

„Vonandi gengur yfirtakan í gegn því ég skil ekki af hverju Mike Ashley keypti félagið á sínum tíma. Ef Newcastle fær fjárhagslegan stuðning eru engin takmörk fyrir því hvert félagið getur farið,“ sagði Given sem varði mark Newcastle í 12 ár áður en hann fór til City 2009.

Amanda Staveley ætlar að kaupa Newcastle.vísir/getty
Given segir að Newcastle geti klifið metorðastigann jafn hratt og City hefur gert á undanförnum árum.

„Heimavöllurinn og stuðningurinn er til staðar. Ég veit ekki mikið um Amöndu Staveley en ég hef heyrt að hún eigi fjölskyldu frá Newcastle og ef hún tekur félagið yfir er raunhæft fyrir Newcastle að verða jafn stórt og City,“ sagði Given.

„Sjáðu bara hvar City var þegar Sjeik Mansour keypti félagið. Þeir voru í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar en sjáðu hvar þeir eru núna. Þeir eru líklegir til að vinna Englandsmeistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu.“

Newcastle, sem er nýliði í ensku úrvalsdeildinni, hefur byrjað tímabilið vel. Newcastle, sem situr í 7. sæti deildarinnar, mætir Burnley á Turf Moor á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×