Umfjöllun, viðtöl og myndir: Afturelding - Selfoss 28-29 │ Þvílík endurkoma hjá Selfyssingum

Einar Sigurvinsson skrifar
Selfoss fagnaði sínum þriðja sigri í Olís-deildinni í kvöld þegar liðið sigraði Aftureldingu, 28-29, eftir æsispennandi lokamínútur í Mosfellsbæ.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og tók þessar skemmtilegu myndir sem eru hér fyrir neðan og í myndaspyrpu hér fyrir ofan.

Afturelding byrjaði leikinn mun betur og áttu Selfyssingar í miklum vandræðum með að finna leiðir í gegn um vörn heimamanna. Á 13. mínútu tók Patrekur Jóhannesson leikhlé, en þá hafði Selfoss aðeins skorað þrjú mörk, sem er ólíkt því Selfoss liði sem sést hefur hingað til í deildinni. Staðan í hálfleik, 14-11, verðskuldað þriggja marka forskot Aftureldingar.

Í síðari hálfleik gáfu Selfyssingar aðeins í og varð leikurinn fyrir vikið töluvert hraðari en hann hafði verið í fyrri hálfleik. Mosfellingar gáfu hinsvegar ekkert eftir og héldu sinni þriggja til fjögurra marka forystu nánast allan síðari hálfleikinn. Forskot Aftureldingar varð mest fimm mörk, 24-19, þegar 14 mínútur voru eftir af leiknum og illa gekk hjá Selfossi að saxa á forskotið.

Það var ekki fyrr en á 54. mínútu sem Selfyssingar hrukku í gang. Á fimm mínútna kafla skoraði Selfoss fjögur mörk í röð og jöfnuðu leikinn, 26-26. Að lokum kláraði Einar Sverrisson leikinn fyrir Selfoss eftir hörkuspennandi lokamínútur, 28-29.

Selfoss hirti þar með stigin tvö þrátt fyrir að hafa komist yfir í fyrsta sinn í leiknum á lokamínútunni og Afturelding bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í deildinni.



Af hverju vann Selfoss leikinn?

Þetta var karaktersigur eins og hann gerist bestur. Selfyssingar misstu aldrei trúna, þrátt fyrir að elta Aftureldingu allan leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Elvar Örn Jónsson var allt í öllu í sóknarleik Selfyssinga undir lok leiksins. Hann byrjaði á því að fiska víti á 54. mínútu sem Teitur Örn skoraði úr. Í kjölfarið skoraði hann næstu fjögur mörk leiksins og jafnaði í 26-26. Elvar endaði síðan leikinn markahæstur í liði Selfoss með með 7 mörk.

Í liði Aftureldingar átti Árni Bragi Eyjólfsson virkilega góðan leik með 11 mörk.

Hvað gekk illa?

Markvarslan gekk illa hjá báðum liðum í dag. Þrír markmenn spiluðu í marki Selfyssinga og voru varin skot þeirra frá 17 til 26 prósent. Lárus Helgi var með 22 prósent vörslu í marki Aftureldingar.

Afturelding var samt sem áður betra lið vallarins stærstan part leiksins í kvöld, en Selfoss gerði vel og refsaði um leið og færi gafst.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar eiga heimaleik á móti ÍR næsta sunnudag, þann 15. október. Aftureldingu bíður síðan erfitt verkefni næsta mánudag, 16. október, þegar Haukar mæta í Mosfellsbæinn.



Patrekur: Getum náð helvíti lang


„Æðislegur sigur. Þetta var eins og ég bjóst við, ég var búinn að segja strákunum fyrir leik að þetta yrði slagsmálaleikur. Ég var fúll að við vorum ekki tilbúnir í það. Þeir voru rosalega þéttir og við sóttum þar sem þeir eru sterkastir og svo vorum með litla markvörslu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, við Vísi í leikslok.

Patrekur var að vonum ánægður með sína menn sem náðu að vinna niður forskot Aftureldingar á lokamínútum leiksins.

„Það sem ég er svo ánægður með og það sem er svo mikilvægt fyrir okkur er að við gáfumst aldrei upp. Eins og á móti Val, þá vorum við bara jafn sterkir og þeir í 45 mínútur en síðan gáfum við algjörlega eftir. Núna gáfumst við ekkert upp, tókum af skarið og auðvitað ákveðin heppni líka.“

Selfyssingar áttu meirihluta leiksins í miklum erfiðleikum með að vinna sig í gegnum vörn Afturelding, sem var yfir meirihluta leiksins yfir.  

„Afturelding er bara massalið og þeir eru með sterka stráka. Ég er pottþéttur á því að þeir eiga eftir að ná í sín stig.“

„Það sem við þurfum að læra samt sem áður, er að mæta með þetta skap og þessa frekju sem var síðasta korterið. Ef ég næ því inn í þetta Selfosslið, þá getum við náð helvíti langt. En það er stundum stutt í aumingjann hjá okkur og við þurfum að passa það,“ sagði sáttur Patrekur Jóhannesson að lokum.







Einar: Vorum bara óheppnir og klaufar


„Mjög fúlt að ná ekki að klára þetta. Við spiluðum virkilega góðan leik í dag á móti frábæru liði, mér fannst við eiga að skilið að minnsta kosti stig út úr þessum leik, ef ekki tvö,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar í leikslok.

Afturelding var yfir mestan part leiksins, en það var ekki fyrr en á 57. mínútu sem Selfossi tókst að jafna.

„Við vorum bara óheppnir og klaufar á köflum hérna í lokin. Við unnum vel eftir plani og því miður bara datt þetta ekki með okkur núna. Við þurfum bara að skoða af hverju.“

Afturelding er því enn án sigurs eftir fimm leiki í Olís-deildinni, en þeim hafði verið spáð góðu gengi fyrir tímabilið.

„Við erum bara ekki búnir að spila nógu vel, það er bara einfalt mál. Við erum að spila ágætlega á löngum köflum í leikjunum en náum ekki að klára okkur í gegn og þess vegna erum við ekki að klára sigrana. Það þýðir ekkert að pæla í því hvort það sé krísa eða ekki krísa. Verkefnið er bara þetta og menn þurfa bara að vinna úr því,“ sagði Einar, sem var að vonum svekktur í leikslok.

Einar Sverrisson var hetja Selfossliðsins í kvöld.Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss.Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.Vísir/Eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira