Innlent

Ekki spáð í að selja Kjarnahlut

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson.
„Ég hef ekki leitt hugann að því,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, aðspurður hvort hann hyggist selja 5,69% hlut sinn í fjölmiðlinum Kjarnanum í nánustu framtíð. Ágúst Ólafur er einn sjö stærstu hluthafa Kjarnans en hann bendir á að hann hafi sagt sig úr stjórn Kjarnans þegar hann ákvað að fara í framboð. Hann eigi þó hlutinn áfram.

Samfylkingin mælist með 10,5 prósenta fylgi í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins og virðist flokkurinn vera á siglingu og því líkur á að Ágúst Ólafur nái kjöri ef fram heldur sem horfir auk þess sem Samfylkingin kann að vera í lykilstöðu við myndun næstu ríkisstjórnar. Aðspurður hvort hann muni selja hlut sinn nái hann kjöri segir hann það alveg geta komið til greina.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata og oddviti í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar, hefur reynt að selja 1,6% hlut sinn í fjölmiðlinum Stundinni um langa hríð. Hann hefur látið hafa eftir sér að það sé óeðlilegt að þingmenn séu í eigendahópi fjölmiðla, sem eigi að veita þeim aðhald.

„Það getur fullkomlega komið til greina en þarf bara að koma í ljós. Ég get alveg skilið það sjónarmið,“ segir Ágúst aðspurður um skoðun hans á málinu.

Smári, sem kvaðst í samtali við DV í mars vera kominn með kaupanda að hlut sínum í Stundinni og bjóst við að klára söluna í sumar, er enn skráður fyrir hlutnum samkvæmt uppfærðri skráningu Fjölmiðlanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×