Viðskipti innlent

Rekstrargjöld GAMMA jukust um 65 prósent á fyrri árshelmingi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi.
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi.
Hagnaður fjármálafyrirtækisins GAMMA Capital Management nam 411 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og dróst saman um 8,5 prósent á milli ára. Mestu munaði um hærri rekstrargjöld en þau voru um 604 milljónir króna á tímabilinu og hækkuðu um 65 prósent á milli ára. Hreinar rekstrartekjur námu 1.118 milljónum króna á fyrri helmingi ársins og jukust um tæpar 200 milljónir á milli ára.

Eigið fé félagsins var 1.839 milljónir króna í lok júnímánaðar og jókst um liðlega 6 prósent á milli ára. Voru eignirnar á sama tíma 2.730 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 35,2 prósent. Til samanburðar var hlutfallið 52,2 prósent í lok síðasta árs.

Alls störfuðu 22 manns að meðaltali hjá GAMMA á fyrstu sex mánuðum ársins, borið saman við 20 á sama tíma í fyrra, og námu laun samtals 230 milljónum króna. Til samanburðar námu þau 163 milljónum á sama tíma 2016 og hækkuðu þau þannig um 41 prósent á milli ára. Annar rekstrarkostnaður hækkaði hins vegar enn meira eða úr 156 milljónum króna í rúmlega 316 milljónir.

GAMMA hefur á undanförnum tveimur árum haslað sér völl erlendis, fyrst með opnun skrifstofu í Lundúnum árið 2015 og síðan í Zürich í Sviss fyrr á þessu ári. Stefnt er að opnun skrifstofu í New York síðar á árinu.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×