Viðskipti innlent

Verkefnisstjórnin heldur sínu striki þrátt fyrir kosningar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Verkefnisstjórnin, sem var fyrr á árinu falið að endurskoða peningastefnu Íslands til framtíðar, heldur sínu striki þrátt fyrir stjórnarslit og boðaðar þingkosningar, að sögn Ásgeirs Jónssonar, lektors í hagfræði við Háskóla Íslands, sem á sæti í stjórninni.

Vinnu verkefnisstjórnarinnar, sem tók til starfa í mars síðastliðnum, miðar ágætlega en ekki liggur þó fyrir hvenær henni mun ljúka. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skipaði stjórnina en auk Ásgeirs eiga þar sæti hagfræðingarnir Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson.

Markmið endurskoðunarinnar, að því er sagði í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu, er að finna þann ramma peningastefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika hér á landi.

Í sumar var nokkrum erlendum sérfræðingum falið að veita stjórninni ráðgjöf, en í þeim hópi eru meðal annars Patrick Honohan, fyrrverandi seðlabankastjóri Írlands, og Athanasios Orphan­ides, prófessor við MIT-háskóla og fyrrverandi seðlabankastjóri Kýpurs. Gert er ráð fyrir að erlendu sérfræðingarnir ljúki sinni vinnu um áramót.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×