Viðskipti innlent

Félag Einars Sveinssonar hagnast um 375 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Félag Einars Sveinssonar á meðal annars hluti í Borgun, Kynnisferðum, ISS á Íslandi og Kviku banka.
Félag Einars Sveinssonar á meðal annars hluti í Borgun, Kynnisferðum, ISS á Íslandi og Kviku banka.
Eignarhaldsfélag Einars Sveinssonar, fjárfestis og föðurbróður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, skilaði 375 milljóna króna hagnaði í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins. Jókst hagnaðurinn um liðlega 60 milljónir króna eða um 23 prósent á milli ára.

Eigið fé félagsins, sem ber heitið P 126 ehf., nam tæplega 1.620 milljónum króna í lok síðasta árs og jókst um 310 milljónir á milli ára. Var eigin­fjárhlutfall félagsins 98,8 prósent í lok árs 2016.

P 126 ehf. er í eigu félagsins Charamino Holdings sem er skráð í Lúxemborg, en Einar Sveinsson er eigandi þess félags. Hagnaður félagsins í fyrra stafaði að mestu af afkomu dótturfélagsins Pei ehf.

Dótturfélagið á meðal annars rúmlega 22 prósenta hlut í Eignarhaldsfélaginu Borgun slf., sem keypti, eins og frægt er orðið, um 25 prósenta hlut af Landsbankanum í Borgun í lokuðu söluferli í nóvember 2014. Í dag nemur hlutur Eignarhaldsfélags Borgunar 32,4 prósentum. Landsbankinn hefur stefnt meðal annars Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna sölunnar. Er það mat bankans að félagið hafi leynt upplýsingum sem það, og aðrir stefndu, bjuggu yfir um að Borgun ætti rétt á hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe.

Bókfært virði Pei ehf. var 314,8 milljónir í árslok 2016, að því er fram kemur í ársreikningi móðurfélagsins. P 126 ehf. á auk þess hlut í meðal annars ISS á Íslandi, Kynnisferðum og Kviku banka.

Lögmaðurinn Benedikt Einarsson, sonur Einars, er skráður eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri P 126 ehf.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×