Erlent

Donald Trump ávarpaði bandarísku þjóðina: Skotárásin í Las Vegas „hrein illska“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, labbar að púltinu áður en hann ávarpar þjóð sína.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, labbar að púltinu áður en hann ávarpar þjóð sína. Vísir/afp
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsir skotárásinni í Las Vegas sem hreinni illsku. Þetta kom fram í ávarpi hans til bandarísku þjóðarinnar fyrir nokkrum mínútum en árásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna. Að minnsta kosti 50 manns eru látnir og á fimmta hundrað særðir.

„Þetta var hrein illska. Bandaríska alríkislögreglan og varnarmálaráðuneytið vinna náið með yfirvöldum á staðnum og aðstoða við rannsókn málsins. Þeir munu veita upplýsingar varðandi rannsóknina og hvernig hún þróast,“ sagði Trump.

Þá þakkaði hann lögreglunni í Las Vegas og öðrum viðbragðsaðilum á vettvangi fyrir vinnu þeirra.

„Hversu hratt þeir brugðust við er líkast kraftaverki. Að hafa fundið árásarmanninn svo fljótt eftir að fyrstu skotunum var hleypt af er eitthvað sem við verðum ævinlega þakklát fyrir.“

Trump sagði að bandaríski fáninn yrði í hálfa stöng til minningar um fórnarlömb árásarinnar.

 

„Á tímum sorgar og hryllings sameinast Bandaríkjamenn og verðum sem einn maður. Það höfum við alltaf gert,“ sagði forsetinn. „Samstaða okkar verður ekki rofin með illsku.“

Trump greindi síðan frá því að hann muni heimsækja Las Vegas á miðvikudag og hitta lögregluna og viðbragsðaðila sem og fjölskyldur þeirra sem létust.

Í lok ávarpsins var Trump svo á trúarlegum nótum:

„Megi Guð blessa sálir þeirra sem létust [...] og megi Guð gefa fjöldskyldum þeirra styrk til að halda áfram. Þakka ykkur og Guð blessi Ameríku.“

Sjá má ávarpið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×