Viðskipti innlent

Setja Tempo í söluferli

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Nýherja í Borgartúni. Vísir/Vilhelm
Höfuðstöðvar Nýherja í Borgartúni. Vísir/Vilhelm
Stjórn Nýherja hefur falið alþjóðlega fjárfestingabankanum AGC Partners að hefja formlegt söluferli á verulegum eignarhlut félagsins í dótturfélaginu Tempo.

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir að söluferlið miði að því að félagið fái til liðs við sig samstarfsaðila með mikla reynslu af alþjóðlegri uppbyggingu hugbúnaðarfyrirtækja.

„Þróun og rekstur Tempo hefur gengið vel undanfarin misseri og hefur meðal annars falið í sér að undirbúa félagið undir söluferli til alþjóðlegra fjárfesta. Með þróun Tempo Cloud for JIRA og yfirfærslu yfir 7.000 viðskiptavina á nýtt skýjaumhverfi Tempo hjá AWS (Amazon Web Services) hafa opnast fjölmörg og spennandi tækifæri til frekari vaxtar, meðal annars með samþættingu við aðra skýjaþjónustu, en eingöngu JIRA frá Atlassian,“ segir Finnur.

Um eitt hundrað sérfræðingar starfa hjá Tempo og er gert ráð fyrir að tekjur félagsins verði yfir 17 milljónum dala í ár.

Finnur bætir við að síðastliðið ár hafi AGC Partners verið félaginu til ráðgjafar varðandi stefnumarkandi þætti í rekstri Tempo og aðstoðað við almenna kynningu á félaginu til tæknifjárfesta. Bankinn muni nú fylgja eftir þessum undirbúningi með formlegu söluferli á Tempo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×