Viðskipti innlent

Tveir bandarískir sjóðir komnir með 2,8 prósenta hlut í TM

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hlutabréf TM hafa hækkað um 16 prósent í verði í ár.
Hlutabréf TM hafa hækkað um 16 prósent í verði í ár. vísir/anton brink
Tveir bandarískir fjárfestingarsjóðir á vegum eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management komust nýverið í fyrsta sinn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins TM.

Sjóðirnir Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage eiga þannig í dag samanlagt 2,84 prósenta hlut í TM sem þýðir að þeir eru saman elleftu stærstu hluthafar félagsins. Hlutur sjóðanna er metinn á tæpar 590 milljónir króna miðað við gengi bréfa TM eftir lokun markaða í gær.

Sjóðirnir eru einu erlendu aðilarnir sem komast á lista yfir stærstu hluthafa í TM. Þeir eru jafnframt á lista yfir stærstu hluthafa í öllum þremur tryggingafélögunum – Sjóvá, TM og VÍS – sem eru skráð á hlutabréfamarkað.

Sjóðirnir umræddu voru ekki á hluthafalista TM í lok síðasta árs, samkvæmt upplýsingum Markaðarins.

Fjárfestingarsjóðir á vegum Eaton Vance hafa frá árinu 2015 verið langsamlega umsvifamestir erlendra aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sjóðirnir eru á meðal tuttugu stærstu hluthafa í tíu félögum í Kauphöllinni og má ætla að samanlagt markaðsvirði þess eignarhlutar nemi vel yfir tíu milljörðum króna.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×