Viðskipti innlent

Óttast ekki offramboð á notuðum bifreiðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Margar bílasölur eru nú yfirfullar af notuðum bílum og sala á nýjum hefur gengið vel.
Margar bílasölur eru nú yfirfullar af notuðum bílum og sala á nýjum hefur gengið vel. vísir/jói k.
„Við höfum ekki stórar áhyggjur af því að það staflist upp einhver bílamassi hér þó að bílaleigurnar setji eitthvað inn á markaðinn,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins (BGS), aðspurður hvort offramboð sé á notuðum bílum hér á landi eða útlit fyrir slíkt.

Bílaleigur stíga nú varlega til jarðar eftir miklar offjárfestingar í bifreiðum, eins og kom fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í gær. Þar sagði að útlit væri fyrir að verð á notuðum bílum gæti lækkað þegar bílasölur færu að selja bifreiðarnar en fjöldi þeirra hefur fjórfaldast á síðustu sex árum. Í byrjun september voru 25.850 bílaleigubílar á skrá.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
„Einhverjar bílaleigur munu halda að sér höndum og reyna að nýta bílana lengur þannig að þessi floti kemur ekki einn tveir og þrír inn til sölu. Þær hafa líka breytt aðeins verklagi sínu á síðustu árum en áður var það alþekkt að það væru útsölur á haustin á bílaleigubílum en núna dreifist þetta betur yfir allt árið,“ segir Özur.

„Á næsta ári verður þetta ekki neitt til að hafa áhyggjur af og það er mat okkar. Ef þessi túristasprengja heldur áfram, og bílaleigurnar halda áfram að kaupa það magn af bílum sem þær hafa gert hingað til, þá á einhverjum tímapunkti sjáum við offramboð.“

BGS eru samtök sem samanstanda af 155 fyrirtækjum eða bílaverkstæðum, bílasölum og umboðum og öðrum sem bjóða vörur eða þjónustu þeim tengdar. Özur bendir á að verð á nýjum bílum hefur lækkað um 16 til 20 prósent það sem af er ári.

„Það fer alltaf seinna út á notaða markaðinn en hins vegar er lækkunin þar að koma fram núna. Ég á erfitt með að spá hvort það muni lækka meira en það er möguleiki að það gerist.“

Guðfinnur S. Halldórsson, eða Guffi, eigandi Bílasölu Guðfinns og bílasali til 49 ára, segist nú í fyrsta sinn þurfa að vísa mögulegum viðskiptavinum frá.

„Bílasölur eru í dag meira og minna sneisafullar. Ég held að við séum að fara inn í vetur þar sem verður miklu meira af eldri bílum sem verða afskrifaðir því hinir koma til með að lækka í verði,“ segir Guffi og segir að verð á notuðum bílum sé enn of hátt. 

„Þú getur fengið nýjan Hyundai smábíl á 1.880 þúsund og þá kaupir þú ekki notaðan tíu ára gamlan sambærilegan fyrir 700 til 800 þúsund. Það eru til 28 þúsund bílar af 2007 árgerðinni í landinu.“ 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×