Innlent

Móður Ellu Dísar dæmdar bætur vegna gáleysis stjórnenda Sinnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Ragna Erlendsdóttir höfðaði mál gegn Sinnum ehf. og Reykjavíkurborg vegna andláts dóttur sinnar.
Ragna Erlendsdóttir höfðaði mál gegn Sinnum ehf. og Reykjavíkurborg vegna andláts dóttur sinnar. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þjónustufyrirtækið Sinnu ehf. til að greiða Rögnu Erlendsdóttur þrjár milljónir króna í bætur. Ragna hafði stefnt fyrirtækinu og Reykjavíkurborg vegna stórkostlegs gáleysis sem að endingu hafi valdið því að dóttir hennar, Ella Dís Laurens, lést árið 2014.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Reykjavíkurborg af kröfum Rögnu en hún hafði farið fram á að Sinnum efh. og Reykjavíkurborg yrðu dæmd til að greiða henni fimm milljónir króna í bætur óskipt. Var það mat Héraðsdóms Reykjavíkur að andlát Ellu Dísar yrði rakið til stórfellds gáleysis stjórnenda Sinnum ehf., með því að setja ófaglærðan starfsmann í aðstæður sem hann gat ekki ráðið við.

Með ólæknandi taugasjúkdóm

Ella Dís var sjö ára gömul þegar hún lést 5. júní árið 2014 en frá 15 mánaða aldri hafði hún þjáðst af ólæknandi taugasjúkdómi sem olli henni máttleysi, öndunarerfiðleikum, heyrnarskaða, næringarerfiðleikum og fleira.

Ragna fór með Ellu Dís til Bretlands til læknisrannsóknar þegar hún var hætt að geta andað að sjálfsdáðum í júní árið 2008. Þá fór hún einnig með Ellu til læknis í Bandaríkjunum og í kjölfarið búið með hana í Bretlandi ásamt breskum föður hennar þar til á árinu 2011, þegar mæðgurnar komu aftur til Íslands. Ragna fór með Ellu á ný til Bretlands í árslok árið 2011 og loks, að fenginni heimild breskra barnaverndaryfirvalda, komið með barnið til Íslands að nýju 13. ágúst árið 2012.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði áður haft afskipti af málefnum barnsins og var Ella Dís vistuð utan heimilis á vegum Reykjavíkurborgar frá heimkomu mæðgnanna, en Ragna hafði umgengni við hana með takmörkunum. Dvaldi Ella Dís í fyrstu ýmist í Rjóðri, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, eða á Barnaspítala Hringsins. í júlí árið 2013 flutti hún í Móvað, heimili fyrir langveik og fötluð börn.

Ófaglærður starfsmaður sinnti afleysingum

Vegna skólagöngu Ellu Dísar gerði skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar verksamning við Sinnum ehf., en fyrirtækið býður upp á fjölþætta velferðarþjónustu til einstaklinga. Ella Dís var með sérstakan vinnustól í skólanum, kennslan fór fram í opinni skólastofu en útbúin var aðstaða inn af skólastofunni fyrir Ellu Dís og hennar tæki, auk sjúkrarúm ef hún yrði of þreytt og þyrfti að hvíla sig.

Ella Dís var tengd við öndunarvél í gegnum barkatúbu í hálsi en hún var einnig tengd mettunarmæli sem sýndi súrefnismettun í blóði og hjartslátt. Að jafnaði fékk Ella Dís fylgd í skólann með þroskaþjálfa, en þriðjudagsmorguninn 18. mars 2014 forfallaðist þroskaþjálfinn vegna veikindi. Var ófaglærður starfsmaður Sinnu ehf. fenginn í staðinn en sá hafði áður fylgt Ellu Dís í skóla í afleysingum og þekkti Ellu Dís.

Öndunartúba ekki á sínum stað

Um það leyti sem starfsmaðurinn flutti Ellu Dís úr hjólastól í vinnustól í skólanum mun súrefnismettun hafa fallið og hjartsláttur hækkað. Reyndi starfsmaðurinn árangurslaust að nota sog- og hóstavél, auk þess að hringja í Neyðarlínuna eftir aðstoð. Sex mínútum síðar komu sjúkraflutningamenn á staðinn og var Ella Dís þá í öndunar- og hjartastoppi. Bráðatæknir bar fyrir dómi að hann hefði veitt því athygli að öndunartúban væri ekki á sínum stað í hálsi Ellu Dísar, hann hefði komið henni fyrir komið á öndun með belg.

Endurlífgunartilraunin bar árangur og var Ella Dís flutt á bráðamóttöku barna og þaðan á gjörgæsludeild. Ragna sagði Ellu Dís hafa orðið fyrir miklum heilaskaða við atvikið og kvað hana eftir það aldrei hafa sýnt eðlileg viðbrögð fram að lífslokum þann 5. júní árið 2014.

Dómurinn taldi verklag Sinnum laust í reipum

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi það hafið yfir vafa að þær heilsufarsástæður sem leiddu til lífsloka Ellu Dísar hafi verið afleiðing af því að hún varð fyrir alvarlegum súrefnisskorti 18. mars árið 2014. Benti dómurinn á að af framburði vitna mætti ráða að ýmislegt varðandi umönnun Ellu Dísar hafi verið laust í reipum. Þannig bendi frásagnir vitna til að ekki hafi verið skýrt kveðið á um hver þekking og reynsla starfsmanna þyrfti að vera, hver sæi um þjálfun þeirra og hver væri ábyrgur fyrir því að hún væri nægilega góð.

Stórfellt gáleysi stjórnenda

Dómurinn taldi að andlát Ellu Dísar yrði rakið til þess að stjórnendur Sinnum ehf. sýndu af sér stórfellt gáleysi með því að setja ófaglærðan starfsmann í aðstæður sem hann gat ekki ráðið við. Var af þeirri ástæðu fallist á að Sinnum ehf. bæri að greiða Rögnu Erlendsdóttur miskabætur upp á þrjár milljónir króna.

Þá var Sinnum ehf. dæmt til að greiða Rögnu 800 þúsund krónur í málskostnað.


Tengdar fréttir

Fór í skyndi með Ellu Dís á spítala í London

Ragna Erlendsdóttir fór í skyndi með dóttur sína, Ellu Dís, til Englands í gærkvöldi. Ragna var ósátt við vinnubrögð lækna á Barnaspítala Hringsins og ákvað, án samráðs við íslenska lækna, að fara með dóttur sína á spítala í London.

Ella Dís er látin

Ella Dís Laurens lést í kvöld á heimili sínu eftir að hafa verið komin heim til sín af sjúkrahúsi í síðustu viku.

Móðir Ellu Dísar stefnir borginni

"Hættan á andnauð var stöðugt fyrir hendi enda hafði slíkt áður átt sér stað hjá umönnunaraðilum á vegum Reykjavíkurborgar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×