Viðskipti innlent

Muni gerbreyta húsnæðismarkaðnum fyrir þá sem verst standa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs. ibs
Íbúðalánasjóður hefur ákveðið hverjir hljóti 1.800 milljónir króna í stofnframlög frá sjóðnum til byggingar svokallaðra leiguheimila. Í tilkynningu frá sjóðnum er sagt að um sé að ræða framlög ríkisins vegna byggingar og kaupa á um 370 hagkvæmum leiguíbúðum víða um land. Að þessu sinni séu íbúðir fyrir námsmenn í meirihluta og fengu byggingaraðilarnir að vita af úthlutuninni fyrir helgi. Stofnframlögin nema að minnsta kosti um 18% byggingakostnaðar og því mun þessi eina úthlutun upp á 1,8 milljarða hafa í för með sér byggingu leiguíbúða fyrir ríflega 10 milljarða króna að sögn Íbúðalánasjóðs. 

Þetta er þriðja úthlutun stofnframlaga frá því að Alþingi samþykkti að styrkja uppbyggingu leiguíbúða þar sem greidd er hagstæðari leiga en almenn býðst. Alls hafa nú verið veittir 4,6 milljarðar króna vegna byggingar og kaupa á um 900 íbúðum sem byggingarfélögin skuldbinda sig til að leigja út til tekjulágra og eignalítilla, námsmanna, aldraðra eða fólks með fötlun. Stefnt er að því að leiguverðið fari ekki yfir 25% af heildartekjum þeirra.

Drög að íbúðabyggð í Vogabyggð samkvæmt deiliskipulagi sem var auglýst í sumar. 60 af þeim 112 leiguíbúðum Bjargs íbúðafélags sem nú hlutu stofnframlög verða á lóð lengst til vinstri á myndinni.ibs
Í úthlutuninni nú voru veitt stofnframlög til byggingar 244 námsmannaíbúða: „Um er að ræða 100 íbúðir Byggingarfélags námsmanna við Stakkahlíð og 144 námsmannaíbúðir byggingarfélagsins Grunnstoðar við Nauthólsveg. Til samanburðar eru námsmannaíbúðir á landinu öllu nú um 2.400 talsins og því munu þessi tvö verkefni hafa í för með sér 10% fjölgun námsmannaíbúða á landsvísu,“ segir í tilkynningunni.

Þá hlýtur Bjarg íbúðafélag jafnframt stofnframlög vegna byggingar 112 íbúða, meðal annars í Vogabyggð í Reykjavík, auk þess sem Leigubústaðir Árborgar, Dalvíkurbyggð og Norðurþing hljóta framlög, meðal annars vegna íbúða fyrir fólk með fötlun.

Íbúðalánasjóður mun halda áfram að úthluta stofnframlögum til byggingar og kaupa á leiguheimilum í samstarfi við sveitarfélög. Leggja þau almennt til um 12% byggingakostnaðar til móts við stofnframlög Íbúðalánasjóðs. Á árunum 2016-2022 er áætlað að úthlutað verði framlögum vegna samtals 3.200 íbúða og að heildarkostnaðurinn við uppbyggingu þessa nýja húsnæðiskerfis verði ríflega 80 milljarðar króna.

Gerbreytir húsnæðismarkaðinum

Haft er eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs, í tilkynningunni að uppbygging leiguheimila sé að hans mati mikilvægur þáttur í því að efla húsnæðisöryggi landsmanna.

„Við þurfum að bregðast við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði. Staðan er enn mjög slæm. Fólksfjölgun hefur verið hraðari sem eykur enn eftirspurn eftir húsnæði. Við höfum talað um að það þurfi um 9000 íbúðir inn á markaðinn en í fyrra fjölgaði íbúðum á Íslandi aðeins um 1.580. Það er vissulega meira en síðustu ár en samt ekki nærri nóg til að mæta þörfinni. Leiguheimilin eiga að gagnast þeim sem verðhækkanirnar bitna harðast á. Ríki og sveitarfélög leggja til eigið fé til þessara framkvæmda sem þýðir að við fáum 80 milljarða króna í uppbyggingu húsnæðis sem leigt verður út á sanngjörnu verði. Þetta mun að mínu mati gerbreyta húsnæðismarkaðnum fyrir þá hópa sem verst standa,“ segir Hermann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×