Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fram 39-30 | Átakalaust hjá Haukum gegn Fram

Benedikt Grétarsson skrifar
Úr leik liðanna í deildinni í fyrra.
Úr leik liðanna í deildinni í fyrra. vísir/anton
Haukar áttu ekki í teljandi erfiðleikum með Fram þegar liðin mættust í fimmtu umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Haukar unnu 39-30 eftir að hafa leitt 21-14 í hálfleik.

Haukar eru í toppbaráttu með átta stig að loknum fimm leikjum en Framarar eru með þrjú stig í neðri hluta deildarinnar. Hákon Daði Styrmisson skoraði 10 mörk fyrir Hauka en markahæstur í liði Fram var Mattíhas Daðason  með sex mörk.

Haukar voru ekki lengi að ná undirtökunum í fyrri hálfleik og ekki var það til að hjálpa Frömurum að missa Arnar Birki Hálfdánsson og Þorgeir Bjarka Davíðsson meidda af velli eftir um sex mínútna leik. Arnar Birkir kom reyndar aftur inn á völlinn en gat greinilega lítið beitt sér.

Haukar áttu alltaf svör við varnarleik gestanna og skoruðu mörk í öllum regnbogans litum á fyrstu 30 mínútum leiksins. Það skilaði Haukum öruggri sjö marka forystu í hálfleik og þar með var grunnurinn lagður að sigrinum

Seinni hálfleikur var í raun aldrei spennandi. Það má hrósa Frömurum fyrir ágæta baráttu og að gefast ekki upp í erfiðri stöðu en gæðin voru einfaldlega meiri í liði Hauka. Heimamenn komust mest 11 mörkum yfir í seinni hálfleik og unnu að lokum afar sanngjarnan níu marka sigur.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Haukar eiga fleiri gæðaleikmenn og það er einfaldasta skýringin á sigri liðsins. Áðurnefnd meiðsli lykilmanna Fram voru reyndar alveg hræðileg fyrir leikinn og það hefði líklega getað flokkast sem mjög óvænt úrslit ef Fram hefði tekið stig á Ásvöllum í kvöld. Vörn, markvarsla og sókn voru í góðu lagi lengstum hjá Haukum og þetta var í heild frekar þægilegur dagur á skrifstofunni.

Hverjir stóðu upp úr?



Björgvin Páll Gústavsson lék vel í marki Hauka og varði xx skot, þrátt fyrir að leika nánast ekkert í seinni hálfleik. Daníel Þór Ingason lék að venju vel í vörn og sókn og Halldór Ingi Jónasson er að reynast sannkallaður happafengur frá FH. Hákon Daði er svo sannkölluð markavél. Annars fær liðsheild Hauka mesta hrósið.

Jónatan Vignisson var að reyna allan leikinn og skoraði nokkur fín mörk. Hornamaðurinn Matthías Daðason er slyngur leikmaður sem klárar yfirleitt færin sín vel. Davíð Stefán Reynisson var þó besti maður Fram í þessum leik og barðist af krafti allan tímann.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa að halda einbeitingu, kannski vegna þeirra stóratburða sem voru að gerast á Laugardalsvelli. Leikmenn misstu dampinn, áhorfendur voru daufir, fréttamenn líka og dómarar leiksins úti á túni löngum stundum. Svona er þetta stundum, áfram gakk og næsta mál takk.

Hvað gerist næst?

Haukamenn halda í rútuferð í Mosfellsbæ og mæta þar Aftureldingu. Það væri auðvelt að benda á stöðu liðanna í deildinni og merkja öruggan útisigur en hlutirnir virka víst ekki alveg svoleiðis í íþróttum. Haukar þurfa toppleik til að taka eitthvað frá kjúklingunum í Mosó, því get ég lofað.

Fram fær afar óheppið lið Gróttu í heimsókn og það verður afar áhugaverður leikur. Ég er svo heppinn að hafa séð þrjá leiki með Gróttu og þeir munu láta Framara hafa virkilega fyrir hlutunum. Fram getur tekið jákvæða punkta með sér í þann leik, þrátt fyrir tapið gegn Haukum.

Halldór: Þetta eru ágætis strákar

Hornamaðurinn Halldór Jónasson hefur leikið afar vel fyrir Hauka í undanförnum tveimur leikjum og hann skoraði átta mörk í stórsigrinum gegn Fram. Halldór er uppalinn í FH og viðurkennir að það hafi verið pínu skrítið að skipta yfir til erkifjendanna í Haukum.

„Þetta er samt ótrúlega gaman fyrir mig að fá að koma í Haukana. Ég fékk ekki að spila eins mikið og ég vildi hjá FH og ákvað að gera bara breytingu. Haukarnir höfðu samband, ég fíla þetta vel og er bara að njóta mín með liðinu.“

En eru ekki einhverjir núverandi liðsfélagar sem ekki voru í uppáhaldi áður en að vistaskiptum kom?

„Maður þekkir svo sem einhverja stráka úr skólanum og yngri flokkunum en svo eru aðrir sem maður lærði að hata af litlum ástæðum. Svo eru þetta bara ágætis strákar þegar maður kynnist þeim,“ sagði Halldór brosandi.

Hornamaðurinn er sammála blaðamanni að þetta hafi verið nokkuð öruggt allan leikinn hjá Haukum.

„Maður þarf alltaf að passa sig á Fram, þeir eru til alls líklegir og menn hafa brennt sig á þeim. Það hjálpaði okkur að þeir misstu tvo öfluga leikmenn út en það er nú samt sýnd veiði en ekki gefin þegar slíkt gerist. Við kláruðum þetta bara vel og Haukarnir áttu harma að hefna eftir að Fram sló þá út í úrslitakeppninni í vor.“

„Þetta var heilt yfir bara fín frammistaða. Vörnin hefði mátt vera betri á köflum en þegar maður skorar svona mikið, þá kemst maður stundum upp með slakari varnarleik.“

Guðmundur: Strákarnir gáfust upp

„Það versta við að missa tvo lykilmenn af velli meidda er sú staðreynd að hinir í liðinu hætta bara og gefast upp. Þegar það gerist, vinnum við ekki svona lið eins og Hauka. Þeir eru vel skipulagðir og völtuðu yfir okkur með hraðupphlaupum og góðum leik,“ sagði frekar daufur Guðmundur Pálsson eftir stórt tap Fram gegn Haukum.

Guðmundur hélt áfram að ræða mikilvægi baráttu inni á vellinum.

„Það er ekki nóg í þessu sporti að einn-tveir séu að berjast, það þurfa allir að vera með. Þetta á við um alla sem eru á vellinum og koma af bekknum. Strákarnir gáfust bara upp og þeir vita það, ég er búinn að ræða við þá inni í klefa um þá staðreynd.“

Fram á Gróttu í næsta leik og þar ætlar Guðmundur sér sigur.

„Við snúum þessu við. Við vitum líka að við erum pínu jójó-lið en maður fer svo langt á viljanum einum saman og þegar viljinn fer, er einfaldlega ekki hægt að vinna handboltaleiki.“

Arnar Birkir Hálfdánsson og Þorgeir Bjarki Davíðsson fóru báðir meiddir af velli.

„Mér sýndist þetta vera ökklinn á Arnari Birki en hnémeiðsli hjá Þorgeiri. Hnémeiðslin líta verr út en það þarf bara að meta það í framhaldinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira