Viðskipti innlent

Notar ekki öpp og þykir fátt betra en breskir sakamálaþættir

Helga Þórisdóttir hefur gegnt starfi forstjóra Persónuverndar frá árinu 2015 en fyrirséð er að starfsemi stofnunarinnar taki miklum stakkaskiptum á komandi misserum. fréttablaðið/eyþór
Helga Þórisdóttir hefur gegnt starfi forstjóra Persónuverndar frá árinu 2015 en fyrirséð er að starfsemi stofnunarinnar taki miklum stakkaskiptum á komandi misserum. fréttablaðið/eyþór
Helga Þórisdóttir hefur gegnt starfi forstjóra Persónuverndar frá árinu 2015 en fyrirséð er að starfsemi stofnunarinnar taki miklum stakkaskiptum á komandi misserum. Á næsta ári er áætlað að innleiða í íslenskan rétt umfangsmiklar breytingar á persónuverndarlöggjöfinni sem á eftir að hafa veruleg áhrif á öll þau fyrirtæki sem vinna með persónuupplýsingar. Helga situr hér fyrir svörum í Svipmynd Markaðarins.

Hvað hefur komið þér mest á óvart það sem af er ári?

Það er tvennt. Annars vegar að gögn séu nú talin verðmætari en olía og svo hitt að lesa um það í greininni „The Data That Turned the World Upside Down“, eftir Hannes Grass­egger og Mikael Krogerus, hvernig samfélagsmiðlar hafa verið notaðir af utanaðkomandi aðilum til að greina persónuleika fólks og þannig orðið að leiksoppum þeirra sem hafa vald yfir gögnum og persónuupplýsingum, samanber niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum og Brexit-kosninganna í Bretlandi.

Hvaða app notarðu mest?

Ef frá er talið Google Maps, þá nota ég ekki öpp. Ég lifi eftir þeirri leiðbeiningu að maður eigi að þekkja kerfin sem maður notar. Með uppgangi gervigreindar og notkun hennar á gríðargögnum (e. big data), þá hef ég ekki enn skilið til fulls hvernig persónuupplýsingar eru notaðar og rýndar í flestum þeim öppum sem boðið er upp á – og þess vegna nota ég þau ekki.

Hvað gerir þú í frístundum þínum?

Við erum fimm í fjölskyldunni – sex með öldruðum hundi – og best þykir mér nú að hafa fólkið mitt í kringum mig eða bjóða fjölskyldunni og góðum vinum í mat. Það verður að segjast eins og er að með þokkalega stórt heimili og meira en nóg að gera í vinnunni, þá eru frístundirnar fáar, en þegar þær gefast þá er líka fátt betra en breskir sakamálaþættir.

Hvernig heldur þú þér í formi?

Með því að fara seint og jafnvel ekki í hádegismat og gera upp húsnæði á milli þess sem hundurinn bjargar mér með hundagöngum. En svona án gríns, þá er hægt að fara ansi langt á bláberjaskyri og ristaðri brauðsneið auk þess sem góður taktur hefur alltaf fengið mig til að hreyfa mig.

Hvernig tónlist hlustar þú á?

Ég er hrifin af nær allri tónlist frá sinfóníu til R&B – ef frá er talið þungarokk og rokk. Ég er alin upp með Abba og Boney M og get vel raulað með þeim enn þá. Þeir sem klikka aldrei eru George Michael, Paolo Conte, Carla Bruni – og ótrúlega margir nýir flottir íslenskir, og svo gamlir og góðir eins og Nýdönsk og Mezzoforte – þvílíkir afmælistónleikar um daginn.

Ertu í þínu draumastarfi?

Að starfa sem forstjóri Persónuverndar er mest krefjandi en að sama skapi áhugaverðasta viðfangsefnið sem ég hef tekist á hendur hingað til. Útgangspunkturinn hjá okkur er að standa vörð um mannréttindi og grundvallarréttindi einstaklinga þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga. Það er mjög auðvelt að láta það viðfangsefni fanga sig á tímum tæknibyltingar.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×