Erlent

Gerðu allt hvað þeir gátu til að bjarga stelpu sem er ekki til

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/EPA
Mexíkóska þjóðin sat hugfangin og fylgdist með fregnum af björgunaraðgerðum í rústum skóla sem hrundi í jarðskjálftanum öfluga sem reið yfir ríkið á þriðjudaginn. Fregnir voru sagðar af stelpu sem var föst í rústunum. Hún reyndist þó ekki vera til. Guardian greinir frá.

Sjónvarpstöðvar sögðu fréttir af því hvernig björgunarmenn væru að nálgast þann stað sem þeir töldu hina 12 ára gömlu Fridu Sofiu vera grafin í rústum skólans.

Fréttir voru sagðar af því hvernig bjögurnarsveitarmenn voru klukkustundum saman við einn skóla borgarinnar eftir að þeir heyrðu neyðaróp ungrar stúlku sem er föst í rústunum, var hún talin liggja undir tveimur hæðum húsins sem hrundu ofan á hana.

Í fréttunum, sem byggðar voru á upplýsingum frá yfirvöldum, var sagt frá því hvernig björgunarmenn hefðu náð til hennar, að þeir gæfu henni mjólk að drekka í gegnum rör og að hún væri í samskiptum við skólafélaga sína.

Í gær kom þó í ljós að hin umrædda stelpa virðist þó ekki hafa verið til, og hvað þá föst í rústum skólans. Skyndilega var tilkynnt um að búið væri að finna eða gera grein fyrir öllum nemendum skólans.

Í ljós kom að enginn hafði saknað Fridu og að enginn nemandi skólans bæri nafnið Frida Sofia. Óvíst er hvað varð til þessa að fréttirnar um Fridu náðu útbreiðslu en fjölmiðlar, sem og almenningur, eru sagðir vera pirraðir við yfirvöld fyrir að hafa veitt upplýsingar um nemanda sem virðist aldrei hafa verið til.


Tengdar fréttir

Manntjón og eyðilegging í Mexíkó

Á þriðja hundrað fórust í öflugum jarðskjálfta sem reið yfir Mexíkó á þriðjudag. Tala látinna hækkaði í gær og fjölmargir leita þeirra sem er saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×