Viðskipti innlent

Verðmæti í góðum ráðum frá heimamönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Einar Þór Gústafsson, meðstofnandi Getlocal.
Einar Þór Gústafsson, meðstofnandi Getlocal.
Íslenska sprotafyrirtækið Getlocal setti í dag í gang nýja lausn í ferðatækni. Hún gengur út á að ferðamenn fái góð ráð hjá heimamönnum varðandi upplifun í ferðalaginu.

„Markmið Getlocal er að hjálpa ferðamönnum að fá sem besta upplifun meðan á dvöl þeirra stendur. Við munum tengja saman annars vegar ferðamenn og hins vegar heimamenn sem eiga einhvern sameiginlegan snertiflöt,“ segir Einar Þór Gústafsson, meðstofnandi Getlocal, í tilkynningu.

„Það geta verið svipuð áhugamál, lífsviðhorf, smekkur, aldur, bakgrunnur og ýmislegt fleira. Þannig geta heimamenn sett upp lista yfir það sem þeir mæla með t.d. uppáhalds veitingastaði, söfn, náttúruperlur og veiðistaði eða jafnvel mat, vín og sælgæti svo ég nefni dæmi. Í raun eru engin takmörk fyrir því hverju er hægt að mæla með,” segir Einar.

Enn fremur segir hann að vörur og þjónusta séu einnig selda í gegnum Getlocal. Fyrirtækið sjálft rekur einnig bókunar- og ferðaskrifstofu. Þá segir Einar að þúsundir ferðamanna hafi bókað í gegnum ferðasöluvef fyrirtækisins.

„Heimamenn sem gefa góð ráð og meðmæli til ferðafólks geta þannig fengið greitt fyrir ábendingar sínar því við deilum hluta af sölulaunum okkar til þeirra. Þetta getur hæglega hlaupið á tugum þúsunda króna fyrir þá sem eru virkir í kerfinu okkar,“ segir Einar.

Hann segir þetta góðan kost fyrir fólk sem sé til dæmis að leigja út íbúðir á Airbnb eða sé í beinum samskiptum við ferðamenn.

„Þetta getur einnig verið upplagt fyrir þá sem eiga vini erlendis sem vilja heimsækja landið. Þetta er ekki síður áhugaverð leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki úti á landi til að vekja athygli á vörum og þjónustu sem beint er að ferðamönnum í þeirra heimabyggð, valkostum sem ekki fá mikla almenna kynningu. Það eru jú heimamenn sem gerst þekkja það besta og áhugaverðasta sem í boði er á hverjum stað.“

Hægt er að skrá sig á getlocal.is. Verkefnið mun hefjast hér á landi en Einar segir að einnig verði sótt á erlenda markaði á næstunni.

„Við vonumst til að vera komin vel af stað erlendis fyrir áramót ef allt gengur að óskum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×