Handbolti

Einar: Fannst þér Bjarki ekki góður?

Benedikt Grétarsson skrifar
Einar var sáttur með stigin tvö.
Einar var sáttur með stigin tvö. vísir/anton
„Þetta var virkilega kærkomið, það er óhætt að segja það,“ sagði afar sáttur Einar Jónsson eftir sigurleik Stjörnunnar gegn Selfossi í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Stjarnan vann 29-26 og byrjar mótið af krafti.

Eftir góðan fyrri hálfleik, lentu lærisveinar Einars í basli í uphafi seinni hálfleiks gegn framliggjandi vörn Selfyssinga.

„Já, það tók okkur smá tíma að átta okkur. Við höfum ekkert verið að undirbúa okkur rosalega mikið gegn þessari vörn. Þeir hafa verið að spila önnur varnarafbrigði en þetta er bara flott lið og þeir komu hrikalega grimmir út í seinni hálfleikinn og slógu okkur aðeins út af laginu. Við héldum hins vegar haus, kláruðum leikinn og ég er hrikalega ánægður með það.“

„Fyrri hálfleikurinn var bara frábær. Bæði vörn og markvarsla voru mjög góð og sóknarlega erum við mjög beittir og skorum 17 mörk. Síðasta korterið er líka gott. Þá komum við sterkir til baka eftir að þeir keyra hrikalega á okkur og gera atlögu. Við náum að vinna okkur aftur upp í 4-5 marka forystu og það klárar leikinn. Þetta Selfoss lið er hrikalega gott og það er virkilega ánægjulegt að hafa náð að vinna þá.“

Blaðamaður minnist sérstaklega á frammistöðu Ara Magnúsar Þorgeirssonar og Sveinbjörns Péturssonar og fær umsvifalaust létta pillu frá Einari fyrir að gleyma varnarjaxlinum Bjarka Má Gunnarssyni.

„Fannst þér sem sagt Bjarki ekki góður í vörninni? Hann var líka frábær. Liðsheildin var bara góð. Við lendum í meiðslum og þurfum að rótera aðeins. Við erum að bregðast mjög vel við, margir að spila og margir að skila virkilega góðu hlutverki. Menn eru búnir að tala ansi mikið um að þessi deild verði svakaleg og þetta er örugglega eitthvað sem koma skal. Ég vona bara að fólk hafi skemmt sér og notið þess að horfa á þennan leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×