Erlent

Eiturefni úr húðflúrum geta borist í eitla

Kjartan Kjartansson skrifar
Ýmis óhreinindi geta verið í húðflúrbleki sem geta svo borist í eitla mannslíkamans.
Ýmis óhreinindi geta verið í húðflúrbleki sem geta svo borist í eitla mannslíkamans. Vísir/AFP
Örsmáar agnir úr litarefni húðflúra geta borist í gegnum líkamann og endað í eitlum fólks. Sum þessara efna geta verið menguð með eiturefnum. Eitlarnir leika lykilhlutverk í ónæmiskerfi manna.

Í ljósi vaxandi vinsælda húðflúra ákvað hópur vísindamanna að skoða hvernig efni sem notuð eru í þau dreifast um líkamann og hvaða áhrif þau hafa þar.

Húðflúrblek er gert úr lífrænum og ólífrænum efnum sem geta verið menguð með óhreinindum. Algengasta efnið er kinrok en á eftir því kemur hvíta litarefnið títandíoxíð. Það hefur verið tengt við hægari gróanda, kláða og ertingu húðar.

Vísindamennirnir komust að raun um að efni eins og nikkel, króm, mangan og kóbolt geti borist um líkamann úr húðflúrblekinu.

„Þegar fólk vill fá sér húðflúr vandar það oft vel valið á húðflúrstofu sem notar sótthreinsaðar nálar. Engin kannar efnasamsetningu litanna en rannsókn okkar sýnir að fólk ætti kannski að gera það,“ segir Hiram Castillo, einn höfunda rannsóknarinnar sem birtist í vísindaritinu Scientific Reports, við The Guardian.

Næstu skref eru sögð að rannsaka hvort að efnin hafi skaðleg áhrif í líkamanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×