Erlent

Hlutverk Kínverja og Rússa að svara tilrauninni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bandaríkjamenn vilja að Kínverjar og Rússar ráði för.
Bandaríkjamenn vilja að Kínverjar og Rússar ráði för. vísir/EPA
Yfirvöld í Norður-Kóreu svöruðu nýjum viðskiptaþvingunum í fyrrinótt með sínu lengsta eldflaugaskoti til þessa. Eldflaugin flaug yfir norðurhluta Japans í um 770 kílómetra hæð. Flaug hún alls 3.700 kílómetra sem myndi duga til að hæfa eyjuna Gvam. Norður-Kórea hefur ítrekað hótað að ráðast á eyjuna.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að það væri fyrst og fremst hlutverk yfirvalda í Kína og Rússlandi að reyna að hafa hemil á Norður-Kóreumönnum.

„Þau verða að sýna í verki að tilraunir sem þessar eru óásættanlegar,“ sagði Tillerson og bætti því við að enginn flytti meiri olíu til einræðisríkisins en Kína og að enginn græddi meira á nauðungarvinnu norðurkóreskra borgara en Rússar.

Kínverjar og Rússar voru hins vegar ekki hrifnir af ummælum Till­ersons. Hua Chunying, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, sagði ríki sitt ekki miðpunkt þessara deilna. „Allir aðilar ættu að sýna ábyrgð. Það hjálpar engum að reyna að firra sig ábyrgð.“

Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands, tók í sama streng. „Því miður er herská orðræða það eina sem kemur frá Washington.“

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu sem byggði kosningabaráttu sína á því að lofa bættum samskiptum við norðrið, hélt neyðarfund vegna eldflaugartilraunarinnar. Sagði hann á fundinum að í ljósi aðstæðna væri algjörlega ómögulegt að eiga í vitrænum samræðum við yfirvöld í Norður-Kóreu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×