Handbolti

Aalborg kastaði frá sér unnum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron gerði Aalborg að dönskum meisturum á síðasta tímabili.
Aron gerði Aalborg að dönskum meisturum á síðasta tímabili. vísir/getty
Íslendingaliðið Aalborg fór afar illa að ráði sínu gegn Flensburg í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag. Lokatölur 30-27, Flensburg í vil.

Dönsku meistararnir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-15, og þegar 19 mínútur voru eftir var staðan 19-23, Aalborg í vil.

Þá steig Flensburg á bensíngjöfina, vann síðustu 19 mínútur leiksins 11-4 og leikinn 30-27.

Janus Daði Smárason skoraði eitt mark fyrir Aalborg en Arnór Atlason var ekki á meðal markaskorara. Aron Kristjánsson er þjálfari liðsins.

Annað Íslendingalið, Kristianstad, gerði jafntefli við sterkt lið Zagreb á heimavelli í A-riðli. Lokatölur 28-28.

Arnar Freyr Arnarsson var eini Íslendingurinn í liði Kristianstad sem komst á blað í leiknum í dag. Línumaðurinn öflugi skoraði eitt mark.

Þráinn Orri Jónsson skoraði eitt mark þegar Elverum tapaði með sex marka mun, 36-30, fyrir Kadetten Schaffhausen í C-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×