Erlent

18 ára karlmaður handtekinn vegna hryðjuverka í London

María Elísabet Pallé skrifar
Vísir/AFP
Breska lögreglan hefur handtekið 18 ára karlmann í tengslum við hryðjuverkaárasina í Lundúnum við Parsons Green lestarstöðina í gær.

Þrjátíu slösuðust í árásinni en fæstir þeirra hlutu alvarlega áverka. Ungi maðurinn fannst eftir talsverða leit lögreglu á hafnarsvæðinu í suðurhluta Dover þar sem farþegar geta ferðast til Frakklands með ferju.Theresa May forsætisráðherra tilkynnti i gær að viðbúnaðarstig hefði verið hækkað upp í hæsta stig í Bretlandi sem þýðir efnislega að búast megi við frekari árásum. 

Vitni greindu frá því að sprengjan hefði litið út eins og fata sem hefði verið vafin inn í innkaupapoka. 

Það kviknaði í innihaldi pokans og þá heyrðist hár hvellur en sprengjan sprakk ekki.

Aftur á móti á myndaðist eldhnöttur inni í vagninum.

Greint hefur verið frá því í breskum fjölmiðlum að sprengjan hefði að öllum líkindum banað öllum farþegunum ef hún hefði sprungið.

Íslamska ríkið hefur þegar lýst yfir ábyrgð á tilræðinu.

Lögreglan í Lundúnum hefur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu um unga manninn sem er í haldi hennar grunaður um aðild að árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×