Erlent

Mótmæli í St. Louis gegn sýknu lögreglumanns

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi stendur einn gegn skjaldborg lögreglumanna í St. Louis föstudagskvöldið 15. september.
Mótmælandi stendur einn gegn skjaldborg lögreglumanna í St. Louis föstudagskvöldið 15. september. Vísir/AFP
Hundruð manna hafa haldið áfram mótmælum gegn sýknudómi yfir hvítum lögreglumanni sem drap svartan mann í bandarísku borginni St. Louis í dag, annan daginn í röð. Til átaka kom í mótmælunum í gær.

Mótmælin brutust út eftir að dómari sýknaði lögreglumanninn Jason Stockley af ákæru um að hafa myrt ungan blökkumann, Anthony Lamar Smith, árið 2011.

Smith var skotinn fimm sinnum í bíl sínum eftir að hafa reynt að stinga Stockley og félaga hans af. Lögreglumennirnir ætluðu að handtaka hann í tengslum við meint fíkniefnaviðskipti.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að saksóknarar hefðu ekki sýnt fram á að Stockley hefði ekki skotið Smith í sjálfsvörn svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa.

U2 aflýsti tónleikum vegna ofbeldsins í gær

Tíu lögreglumenn særðust og 23 voru handteknir þegar til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu í borginni í gærkvöldi, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Mótmælin í dag hafa verið friðsamleg fram að þessu. Írska hljómsveitin U2 aflýsti engu að síður tónleikum sem hún ætlaði að halda í St. Louis í kvöld af ótta við að ekki væri hægt að tryggja öryggi tónleikagesta.

Saksóknarar héldu því fram að á upptökum úr lögreglubílnum mætti heyra Stockley segja að hann ætlaði að drepa Smith.

Verjendur sögðu hins vegar að Stockley hafi talið að Smith væri vopnaður og að skotvopn hafi fundist í bíl hans. Saksóknarar sökuðu lögreglumanninn aftur á móti um að hafa komið byssunni fyrir og vísuðu til þess að á henni fannst aðeins erfðaefni úr Stockley.

Sjálfur segist Stockley ekki hafa gert neitt rangt.

„Ég myrti ekki Anthony Lamar Smith. Ég kom byssu ekki fyrir,“ sagði Stockley við St. Louis Post-Dispatch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×