Erlent

Skotinn til bana við leit að tökustöðum fyrir Narcos

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Carlos Munoz Porta er sagður hafa verið að leita að vænlegum tökustöðum fyrir næstu þáttaröð Narcos þegar hann var myrtur.
Carlos Munoz Porta er sagður hafa verið að leita að vænlegum tökustöðum fyrir næstu þáttaröð Narcos þegar hann var myrtur. Vísir/Getty
Starfsmaður við framleiðslu Netflix-þáttaraðarinnar Narcos hefur verið skotinn til bana í Mexíkó. Maðurinn er sagður hafa verið að leita að vænlegum tökustöðum fyrir næstu þáttaröð þegar hann var myrtur, að því er fram kemur í frétt BBC.

Maðurinn, Carlos Munoz Portal, var 37 ára gamall. Hann fannst í bíl sínum í bænum Temascalapa í Mexíkó en lík hans var alsett byssukúlum.

Í viðtali við spænska dagblaðið El Pais sagði vinur Munoz hann hafa verið á ferðalagi um Mexíkó að leita að vænlegum tökustöðum fyrir tökur á Narcos, vinsælli glæpaþáttaröð úr smiðju efnisveitunnar Netflix. Munoz fannst látinn á mánudag en fregnir bárust fyrst af andláti hans nokkrum dögum síðar.

Netflix sendi fjölskyldu Munoz samúðarkveðjur í yfirlýsingu.

Ferill Munoz spannar tíu ár en hann hafði unnið við kvikmyndir á borð við nýjustu mynd James Bond-seríunnar, Spectre, Fast and the Furious og Apocalypto.

Narcos, glæpaþáttaröð úr smiðju Netflix, hefur slegið í gegn meðal áskrifenda efnisveitunnar en serían fjallar um ævi og störf kólumbíska eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar. Munoz starfaði sem verktaki við framleiðslu fjórðu Narcos-þáttaraðarinnar sem sögð er munu einblína á mexíkóska Juárez-eiturlyfjahringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×