Erlent

Skutu vopnaðan hinsegin aðgerðarsinna til bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Scout Schultz fór fyrir samtökum hinsegin fólks í Georgia Tech-háskólanum.
Scout Schultz fór fyrir samtökum hinsegin fólks í Georgia Tech-háskólanum. Facebook
Lögreglumenn í Georgíuríki í Bandaríkjunum skutu námsmann til bana aðfaranótt sunnudags. Námsmaðurinn er sagður hafa verið framarlega í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Sjálfstæð rannsóknarnefnd hefur verið skipuð vegna málsins.

Á vef breska ríkisútvarpsins er því lýst hvernig lögreglumennirnir fundu námsmanninn, Scout Schultz sem hvorki skilgreinir sem karl né konu, á háskólalóð í Atlanta eftir að hafa brugðist við ábendingu um einstakling vopnaðan hníf og byssu.

Á myndbandsupptöku er sagt að megi heyra hvernig Schultz neitaði að verða við skipunum lögreglunnar um að leggja frá sér hnífinn. Á Schultz einnig að hafa kallað: „Skjótið mig!“ er hán gekk í átt að lögreglumönnunum. Það hafi verið þá sem Schultz var skotið til bana.

Við leit fundust engin merki um að Schultz hafi haft byssu í fórum sínum. Lögreglumaðurinn sem hleypti af hefur ekki verið nafngreindur. Móðir Schultz segir ekkert tilefni hafa verið til að beita skotvopnum í þessum aðstæðum. „Af hverju notuðu þau ekki eitthvað sem var ekki banvænt, eins og piparúða eða rafbyssur?“

Schultz var formaður hinsegin samtaknna í Georgia Tech háskólanum þar sem hán lagði stund á nám við tölvunarfræði. Í yfirlýsingu frá samtökunum segjast þau miður sín yfir fráfalli Schultz. „Hán hefur verið drifkrafturinn í hinsegin samtökunum undanfarin tvö ár. Hán hefur hvatt okkur til að halda stærri og fleiri viðburði.“ Málið er til rannsóknar sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×