Erlent

Trump mun leita bandamanna á allsherjarþingi

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump mun flytja sína fyrstu ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun. Forsetinn hefur ítrekað gagnrýnt Sameinuðu þjóðarinnar og meðal annars kallað stofnunina sveitaklúbb fyrir erindreka og sagt að Sameinuðu þjóðirnar séu óvinveittar Bandaríkjunum og Ísrael. Trump hefur kallað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar dragi úr kostnaði og hafa rúmlega 100 þjóðir skrifað undir viljayfirlýsingu varðandi breytingar á Sameinuðu þjóðunum.

Á sama tíma mun hann þurfa að leita að bandamönnum gegn Norður-Kóreu meðal þeirra 193 þjóða sem taka þátt í þinginu. Þá munu erindrekar Norður-Kóreu einnig hlýða á ræðu forsetans.

Talið er að Trump muni leita leiða til að fá stuðning við hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu. Nú þegar er umfangsmiklum aðgerðum beint gegn Norður-Kóreu sem snúa flestar að því að draga úr tekjum ríkisins vegna útflutnings og takmarka aðgang þeirra að hráefnum.



Þær refsiaðgerðir sem eru til staðar banna í raun um 90 prósent skráðs útflutnings Norður-Kóreu, sem hefur þó lengi verið sakað um að, meðal annars, flytja út vopn í gegnum skúffufélög og með öðrum ólöglegum leiðum.

Leita leiða til umbóta

Trump mun í dag funda með Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem hefur þegar lagt fram tillögur að umfangsmiklum umbótum á stofnuninni. Meðal þess sem ríkisstjórn Trump hefur skoðað eru friðarsveitir Sameinuðu þjóðanna, sem eru nú að störfum á sextán stöðum í heiminum.



Kostnaðurinn við þær aðgerðir munu vera um átta milljarðar dala á ári hverju. Það er kostnaður sem Trump-liðar vilja draga úr. Guterres hefur einnig sagt að það komi til greina að draga úr kostnaði þar.

Um fjórðungur af fjármagni Sameinuðu þjóðanna kemur frá Bandaríkjunum, sem eru með stærsta hagkerfi heimsins. Þá koma um 28 prósent þeirra fjármuna sem varið er í friðargæslu frá Bandaríkjunum. Donald Trump hefur ítrekað sagt það vera ósanngjarnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×