Erlent

Lík manns sat í bíl á flugvelli í átta mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá flugvellinum í Kansas City.
Frá flugvellinum í Kansas City. Google Maps
Á meðan fjölskylda Randy Potter leitaði hans í átta mánuði var lík hans í vinnubíl hans á bílastæði við flugvöll. Leitarsveitir leituðu víða um Lenexa í Kansas án þess að finna neitt. Potter mun hafa framið sjálfsvíg í vinnubíl sínum á flugvellinum í Kansas City. Lögreglan fann svo líkið eftir að kvartanir fóru að berast um slæma lykt.

Fjölskylda Potter fer fram á svör frá yfirvöldum Kansas City varðandi það hvernig lík Potter gat verið í bíl á bílastæði í heila átta mánuði án þess að það hefði fundist. Talsmaður borgarinnar segir rannsókn yfirstandandi en bílastæðin við flugvöllinn eru um 25 þúsund talsins.

Var sagt snemma að leitað yrði á flugvellinum

Fjölskylda Potter útvegaði þó yfirvöldum lýsingu á bílnum og númer hans reglulega og samkvæmt frétt Washington Post var þeim tilkynnt að öryggisverðir færu reglulega yfir bílastæðin og könnuðu þau gaumgæfilega.

Eiginkona Potter, Carolina, fór meira að segja á flugvöllinn til að leita að bílnum en var tilkynnt að hann myndi finnast strax ef hann væri þar og þau þyrftu ekki að leita þar.



Einn leitarmaður sem rætt var við segist óska þess að hann hefði ekki treyst öryggisþjónustu flugvallarins, sem hann keyrir reglulega fram hjá. Hann segir að hefði hann leitað á flugvellinum hefði hann fundið bílinn sjálfur.

Carolina, segist oft hugsa um þá daga í sumar þegar hitinn var sem mestur. Þegar hún talað við blaðamann um ástand líksins og lyktina af því brast hún í grát.

Samkvæmt frétt Kansas City Star var lík Potter í svo slæmu ásigkomulagi þegar það fannst að ekki var hægt að segja til um hvers kyns það væri.

Hér má sjá Caroline ræða við blaðamann Kansas City Star um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×