Viðskipti innlent

Kröfu Gamma ehf. vísað frá í Hæstarétti

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma Capital Management.
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma Capital Management. Vísir/Stefán
Hæstiréttur staðfesti á mánudag niðurstöðu héraðsdóms sem vísaði frá fyrr í sumar kröfu fasteignafélagsins Gamma ehf. um að fjármálafyrirtækinu Gamma Capital Mangement yrði bannað að nota heitið GAMMA í fasteignaviðskiptum. Var það niðurstaða dómsins að Gamma ehf. hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfuna.

Fasteignafélagið krafðist þess að Gamma Capital Management yrði meinað að nota heitið GAMMA í atvinnustarfsemi sinni þegar kæmi að umsjón með íbúðarhúsnæði, leigu þess og öðrum fasteignaviðskiptum.

Héraðsdómur taldi ekki sannað að Gamma Capital Management hefði notað vörumerkið til slíkra viðskipta. Kom meðal annars fram í dómnum að krafa Gamma ehf. hefði ekki verið rökstudd með því að hitt félagið hefði notað heitið í atvinnustarfsemi eða hygðist gera það.

Sjóður í rekstri Gamma Capital Management á Almenna leigufélagið, annað stærsta leigufélag landsins á almennum markaði, en Gamma ehf. á og leigir út fasteignir í miðbæ Reykjavíkur. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Leiðrétting:

Í upphaflegri frétt var ranglega sagt til um eignarhaldið á Almenna leigufélaginu. Rétt er að félagið er í eigu sjóðs í rekstri Gamma Capital Management. Beðist er velvirðingar á þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×