Viðskipti innlent

Austurberg kaupir Íspan

Atli Ísleifsson skrifar
Í tilkynningunni kemur ekkert fram um kaupverð.
Í tilkynningunni kemur ekkert fram um kaupverð. Íspan
Samkomulag hefur náðst milli hluthafa Íspan ehf. og Austurbergs ehf. um kaup þess síðarnefnda á félaginu.

Í tilkynningu frá Deloitte, sem hélt utan um söluna, segir að söluferlið hafi hafist í maí síðastliðnum og hafi fjölmargir aðilar sýnt áhuga á kaupum á félaginu. „Niðurstaða fyrrgreinds ferlis var að ganga til samninga við Austurberg ehf. Umsjón söluferlisins var í höndum Deloitte sem jafnframt var ráðgjafi seljenda en Ernst & Young og Local lögmenn voru ráðgjafar kaupanda. Afhending félagsins hefur farið fram.“

Í tilkynningunni kemur ekkert fram um kaupverð.

Haft er eftir Guðmundi Grímssyni, yfir hönd seljenda Íspan, að mikil ánægja sé með niðurstöðuna. „Við hlökkum til að vinna með nýjum eigendum að rekstri félagsins á næstu misserum. Við vorum farin að huga að kynslóðaskipum og teljum að niðustaða söluferlisins sé jákvæð fyrir félagið, starfsfólk þess og viðskiptavini.“

Einar Þór Harðarson hjá Austurbergi segir Íspan vera rótgróið framleiðslufyrirtæki með gott orðspor og sé þekkt fyrir hátt þjónustustig og gæðaframleiðslu. „Markmið okkar með kaupunum er að halda áfram því góða starfi og þróa félagið til framtíðar. Að baki Austurbergs er fjölskylda, þannig að Íspan verður áfram fjölskyldufyrirtæki. Íspan byggir á gömlum og góðum grunni, framleiðir gæða vörur á Íslandi, fyrir íslenskar aðstæður og getur afhent framleiðslu sína hratt til viðskiptavina um land allt. Mikil þekking og fagmennska er til staðar hjá Íspan þar sem flestir starfsmenn hafa unnið lengi hjá félaginu.“

Íspan var stofnað árið 1969 og sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á gleri og speglum. Hjá félaginu starfa, að jafnaði, um það bil þrjátíu manns í framleiðslu- og söludeild. Seljendur munu starfa með nýjum eiganda fram á næsta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×