Lífið

Umdeild Taylor Swift gefur óvinum sínum tóninn og jarðsyngur gömlu ímyndina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hin nýja Taylor sést hér ofan á hrúgu af gömlum Taylor-um sem allar mæta örlögum sínum í myndbandinu.
Hin nýja Taylor sést hér ofan á hrúgu af gömlum Taylor-um sem allar mæta örlögum sínum í myndbandinu.
Það hefur varla farið framhjá mörgum poppunnendum að söngkonan Taylor Swift frumsýndi nýtt tónlistarmyndband á VMA verðlaununum síðastliðinn sunnudag. Myndbandið á stærsta frumsýningardag í sögu YouTube. Á fyrsta sólarhringnum hlaut myndbandið 43,2 milljón áhorf og sló fyrrum methafanum, laginu Gentleman með Psy, úr sessi, sem hlaut 36 milljón áhorf fyrsta daginn.

Það þýðir að um það bil 30 þúsund horfðu á nýja myndbandið við lagið Look What You Made Me Do, á mínútu að meðaltali þennan fyrsta sólarhring. Textamyndbandið sem kom út í síðustu viku braut einnig YouTube met og hlaut 19 milljón áhorf fyrsta sólarhringinn og sló út textamyndbandinu við lagið Something Just Like This með Coldplay og The Chainsmokers.

Lagið Look What You Made Me Do er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu Swift sem heitir Reputation, eða Orðspor. Undanfarin ár hefur Swift hlötið töluvert af neikvæðri fjölmiðlaathygli og hefur hún farið huldu höfði síðasta árið eða svo þar til nú.

Hún hefur sagt að hún muni ekki útskýra myndbandið eða lagið frekar, nú taki orðspor hennar við, bæði persónulega og platan. Myndbandið er hins vegar stútfullt af myndlíkingum og tilvísunum í „óvini“ söngkonunnar og því hafa aðdáendur hennar sjálfir þurft að kryfja myndbandið til mergjar.

Gamla Taylor er dáin

Swift er samt ekkert að skafa af því, þó hún neiti að útskýra hlutina um of. Myndbandið byrjar á skoti af legstein þar sem segir „Hér hvílir orðspor Taylor Swift“ og því næst birtist Swift sjálf sem uppvakningur og hún sést liggja í gröf. Ekki er gefin upp dánarorsök orðspors hennar en gera má ráð fyrir að hana megi rekja til neikvæðrar umfjöllunnar, til dæmis vegna deilna hennar og rapparans Kanye West, sambandsslita hennar og tónlistarmannsins Calvin Harris.

Í einum fyrstu línum lagsins vísar Swift til dæmis í svið sem hallar.

I don't like your little games, don't like your tilted stage/The role you made me play of the fool, no, I don't like you.

Margir telja að þetta sé vísun í síðustu tónleikaferð Kanye West þar sem hann kom fra má sviði sem hallaði og ferðaðist yfir áhorfendur. Það er í raun óhætt að fullyrða að Kanye West og eiginkona hans Kim Kardashian West hafi haft Swift að fífli í fyrra þegar lagið Famous eftir Kanye vakti töluverðu fjaðrafoki.

Í laginu segist West telja líkur á að hann og Swift eigi eftir að stunda kynlíf því hann gerði hana fræga:

I feel like me and Taylor might still have sex. /Why? I made that bitch famous.

West sagðist hafa hringt í Taylor og beðið um leyfi fyrir textanum en hún neitaði því. Nokkrum vikum seinna þegar Swift hlaut Grammy verðlaun fyrir plötu ársins sagði hún að fólk myndi alltaf reyna að eigna sér velgengni annarra, og átti þar augljóslega við að West sagðist hafa gert hana fræga. 

Þegar myndbandið við lagið kom út varð annar stormur þegar vaxstytta af Taylor Swift naktri sást á rúmi ásamt Kim, Kanye, Donald Trump og fleirum sem hafa haft áhrif á feril Kanye. Mánuði seinna birti Kim myndband á Snapchat þar sem Taylor virðist samþykkja textann um hana í Famous og allt sem með því fylgdi.

Dagur snáksins

Sama dag birti Kim færslu á Twitter þar sem hún sagði „Er í alvöru dagur snáksins í dag? Það eru hátíðsdagar fyrir alla, ég meina allt, nú til dags.“ Í kjölfarið varð myllumerkið #TaylorsSwiftIsaASnake vinsælt um allan heim.

Snákar eru einmitt áberandi í myndbandi Swift, sem virðist vilja eigna sér sitt eigið slæma orðspor, drepa það og geta svo risið aftur upp úr öskunni. Það var einmitt snákur sem var það fyrsta sem birtist á Instagram síðu Taylor eftir að hún eyddi öllu efni þaðan út.

En hjónin Kim og Kanye eru ekki einu óvinirnir sem Swift hefur sankað að sér í gegnum tíðina. Annar slíkur er söngkonan Katy Perry. Óvináttu þeirra má rekja til þess að Taylor hefur sakað Katy um að stela undan sér starfsliði.

„Hún reyndi að grafa undan mér og eyðileggja heila tónleikaferð fyrir mér. Hún reyndi að ráða fólk úr mínu starfsliði,“ sagði Swift í viðtali við Rolling Stone, en talið er að lag hennar Bad Blood fjalli um Perry.

Er þetta Taylor Swift eða Katy Perry? Hver veit?Skjáskot
Í einu atriði myndbandsins, sem annars virðist vera frekar samhengislaust, sést Swift lenda í bílslysi á gylltum sportbíl, íklædd hlébarðamynstri með hárið uppsett svo hún virðist vera stuttklippt.

Katy Perry er einmitt stuttklippt og ljóshærð um þessar mundir og hafa kettir í gegnum tíðina verið fyrirferðarmiklir í ímyndarherferðum hennar. Eftir slysið rígheldur Swift í Grammy verðlaun og telja margir að það sé ein stór langatöng í andlit Katy Perry, sem aldrei hefur unnið til Grammy verðlauna.

Swift er raunar einnig mikill kattaunnandi og á öðrum stað þar sem Swift og nokkrir aðrir sjást ræna öryggishvelfingu eru allir með kattagrímur. Mögulega er það önnur vísun í Katy og þegar hún reyndi að ræna dönsurum af Swift. Flestir telja þó að það sé ádeila á streymisveitur, en Swift er ekki hrifin af þeim og telur að þær hafi af listamönnum tekjur.

Þetta er nú frekar eigulegur bolur, áhugasamir geta nælt sér í eintak á heimasíðu Swift.Skjáskot

Ég hjarta Taylor Swift

Þá olli það miklu fjaðrafoki á síðasta ári þegar þáverandi kærasti Swift, leikarinn Tom Hiddleston, sást í bol sem á stóð I<3TS.

Parið var að halda upp á þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna og þótti pressunni sem og aðdáendum leikarans lítið til klæðnaðarins koma. Margir töldu að ferill Hiddleston væri á enda eftir svo opinbera ástarjátningu á eins umdeildri konu og Swift er. 

Swift virðist þó ætla að láta fólk éta það ofan í sig eins og margt annað og sjást dansarar hennar íklæddir svörtum magabolum með áletruninni I<3TS.

Aðdáendur hennar geta nælt sér í eigið eintak á vefsíðu Swift. Von bráðar verða eflaust margir með ástarjátninguna framan á sér og Swift því ekki lengur fíflið í sögunni.



Hversu margar Taylorar þarf til að jarða eina Taylor?Skjáskot

Gamla Taylor kemst ekki í símann

Taylor, sem er 27 ára virðist endanlega ætla að kveðja gömlu kántrí ímyndina og sykursætu poppprinsessuna. í einu atriði sést hin „nýja“ Taylor tróna á toppi fjalls sem eru gamlar ímyndir hennar, íklæddar hinum ýmsu búningum eða kjólum sem hún hefur skartað í gegnum tíðina.

Þegar lagið nær hátindi sést Swift segja í síma „Því miður, gamla Taylor kemst ekki í símann núna. Af hverju? Ó því hún er dauð."

Hinar gömlu ímyndir Taylor birtast þó í lok myndbandins, fyrir framan einkaflugvél þar sem orðið Reputation hefur verið spreyjað á hlið vélarinnar. Þær eru þar saman komnar til að gera grín að sjálfum sér og öðrum.

Einlæga nördalega Taylor sem birtist í „You Belong With Me“ tónlistarmyndbandinu er skömmuð af uppvakninga-Taylor „Hættu að gera þennan undrunarsvip, hann er svo pirandi.“

„Þú getur ekki verið svona undrandi alltaf,“ segir svo ballerínu-Swift sem birtist í myndbandinu við Shake it Off.

Unglings-Swift er sagt að hætta að láta eins og hún sé indæl, það sé uppspuni. Og þegar mjög ung Swift fer að skæla heyrist önnur segja „Þarna spilar hún sig sem fórnarlambið, aftur.“

Þýðir nýja myndbandið að við þurfum aldrei að ræða VMA verðlaunahátíðina árið 2009 aftur? Vonandi.Skjáskot
Í lok myndbandsins kemur önnur augljós vísun í deilur Swift við Kanye West. Taylor sem birtist fólki á VMA verðlaunum 2009 þegar Kanye truflaði ræðu Swift svo eftirminnilega, sést halda á VMA verðlaunastyttunni sinni sem West þótti hún ekki eiga skilið.

„Ég vil gjarnan vera útilokuð úr þessum söguþræði,“ sem var hluti af yfirlýsingu hennar eftir að Kim Kardashian West birti af henni myndböndin á Snapchat. 

„Þegiðu!“ heyrast hinar útgáfur Taylor segja í kór og þar með ætlar Taylor Swift að byrja upp á nýtt.

En aðdáendur Swift eru hvergi nærri hættir. Sumir hafa séð vísanir í mögulega trúlofun við Calvin Harris, vísun í mál hennar gegn útvarpsmanni sem áreitti hana kynferðislega, dansararnir séu átta og vísi í átta sambönd hennar sem hafa vakið fjölmiðlaathygli og þannig mætti lengi telja






Fleiri fréttir

Sjá meira


×